Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ljóð

Vorfílingur

Gul er sinan, grá er jörð,
grundir vetur klæðir.
Brátt mun vorið verma svörð,
vonin hlýju glæðir.

Lækjarniður hvíslar hærra
hávær kliður magnar þrótt,
klakann bryður, brýtur smærra,
burtu ryður, dag og nótt


Ljóðakvöld á Barabar

Ég tók þátt í ljóðakvöldi á Barabar á Borgarnesi þann 11. mars 2023.

Sjá meðfylgjandi skjal.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bjórljóð

Galdr

Ótti vekur vætti
vanda auka fjandar.
Ólmur Ægishjálmur
endar böl og verndar. 
Gullið glas í hellist
Galdr drekk ég kaldan.
Ölið skrímsl burt skilur 
skýlir mér og hvílir.

Kukl

Myrk í huga markar
martröð nætur svarta.
Streyma stafir drauma
staldra við og galdra.
Kukl í speki spriklar
spá um framtíð gráa
dofnar aftur dafnar
dásemd ljóss og krása.

Vetur

Drungi fer um dranga
dimman myrkrið grimma.
Frostið bítur bresti
boðar eymd og doða.
Væru vekur dreyri
Vetur mildi hvetur.
Birtist sólin bjarta
blóðið velgir glóðin.
 

Þorri og öl

Hákarl:
 
Hákarl kjaftinn kitlar mest,
kæst er saft á tungu.
Kemur aftur indæl pest,
eykur kraft í lungu.

 

Vegna umræðu um lykt í fötum vegna hákarls: 

Fara sumir sælu á mis
sitthvör er víst hvötin,
en eta skal hann innvortis
ekki gegnum fötin.

 

Kóræfing Drengjakórs Bara

Hvað er næstum betra'en bjór,
sem bærist milli vara?
Dásamlegur drengjakór
að drekka öl á Bara.

 

Þorrakrísa

Þraukar lúin þrastafrú
í þorrakrísu.
En inni Búi baslar nú,
og býr til vísu.

 


Kári

Kári ljótur losar tak,
linast örstutt kraftur,
kúrir smá svo kreppir bak
og krumlu herðir aftur.

Draumar og gróði

Dáleiddur í draumi svíf,
dreymi'um strönd og bjórinn
og taka mynd á Teneríf,
af tásum fyrir kórinn.
 
Ef sængin mín er mjúk og hlý
meðan stormar blása,
þá dreymi sæll um sól á ný
og sand á milli tása.
 
og limra um gróða
 
Minkabú máttu víst rofna
og munaður laxeldis dofna,
en eflaust munt græða
og aurarnir flæða,
ef við ströndina sjóböð munt stofna.

Norðurljós og eilíft haust

Norðurljós

Vonir birtast, sárt en satt.
er Sólin lemur harðar,
og sameindirnar sullast hratt
um segulhvolfið Jarðar.
 
Eilíft haust

Sólin rís kinnroðalaust
rétt svo yfir sænum.
Þó ei bríni þíða raust
þiðnar snjór í blænum.

Árið skríður endalaust,
eilíf virðist saga.
Haust og haust og haust og haust,
haust er alla daga.
 
Mannvonska
 
Útlendinga úthýsing
mun arfleifð ráðherra.
Morkin verður mannlýsing,
á mætum óþverra.
 
Gamlir pungar
 
Barma sér og bölva, klúrir,
bláu ungarnir.
Grjótharðir nú gerast súrir,
gömlu pungarnir.

Konungleg kveðja

Í dagsins amstri dreymi smá
um drykkinn fagurbrúna.
Fullur er af ferðaþrá
fæ mér kaffi núna.

Notalegt var niðrá strönd,
næs við heiðarbrúna.
Kaldir toppar, kólna lönd
kaffi fæ mér núna.

Það er hvorki ljóst né leynt
hvað lífsins grín vill fúna.
Fráleitt alltof finnst mér seint
að fá mér kaffi núna.

Nokkrar stökur

Tófuhjalli

Sætt var hræ við sjávarhlein
nú sit ég upp til fjalla,
fjaðrir tæti, bít ég bein
og bryð á Tófuhjalla

Sumarfríið

Sumarfríið er víst oft,
ætlað til að njóta,
tærnar allar upp í loft,
og í pottum fljóta.

Rugla
 
Semjum kvæði um sól og hross,
sjávaröldu, fugla,
verðbólgu og varakoss,
vænlegt er að rugla.

Lúsmý
Milli frekna, fann ég sjóð,
feygð mun burtu draga,
volgt og görótt gæðablóð,
gómsætt fyllir maga.

Hnattræn hlýnun
Vissulega viljum grið
vargöld burtu hrindum,
börnin munu berjast við
 bæta'úr okkar syndum.

Brúðkaupsafmæli, fjögur ár
 
❤️🌹
Ber af öllum, fær við flest,
feikn er hennar máttur.
Konan mín er bara best,
byrjar fimmti þáttur.

Fýluvísur

Þeir sem dreyma drjúga hít
af dóli ferðamanna
fá víst aðeins aur og skít
og óbragð milli tanna.
 
-----
 
Yfir mönnum mæddur er,
að Manú grasið sleiki,
níðir aðra þursinn þver,
þurrt nú grætur Eiki.

Mórall yfir markaþurrð,
man hann fyrri siði,
um fyrritíða fótaburð
sem farinn er hjá liði.

Hryllir Eika hengiflug,
hans mun liðið jagast.
Eftir kannski áratug,
ætti samt að lagast.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

160 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 54069

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband