Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2005

Langafi Halldór Guðmundsson

Einn af langöfum mínum hét Halldór Guðmundsson frá Bæ á Selströnd (1897-1975) og kona hans og langamma mín hét Guðrún Petrína Árnadóttir (1894-1974). Hér kemur smá vísnaþáttur um hann, skrifað upp af blöðum sem Mamma hafði skrifað niður. 

Um Grímsey

Grímsey hún er góð og fögur
gleður auga á stofuþili.
Engum finnst hún ennþá mögur
með ótal fulgatónaspili.

Til Bjarnveigar (en hún hafði málað Grímsey af snilld)

Litir eru á léreft settir
lagin reyndist höndin þín.
Allir drættir eru réttir
ástarþakkir vina mín.

Verk þér fari vel úr hendi
víst um nokkrar áraraðir.
Almáttugur oft þér sendi
ótal geisla um himnatraðir.

Til Auðar (21 jan 1968)

Ævin verði yndisleg
aldrei myrkrið svarta.
Leiði þig um lífsins veg
ljósið engil bjarta.

Rækjuveiði

Ekki gengur öllum vel
út á rækju núna.
Fá þeir steina fyllt af skel
fljótt þeir missa trúna.

Til Önnu Halldórsdóttir (Ömmu, jólin 1968)

Gleðileg jólin gefi þér
guð á himnum Anna mín.
Leiði þig nú ljóssins her
ljúf svo verði æfin þín.

Jólastuðið

Aftansöngur aftanfrá
aftur-göngin stíflar
aftanstöngin aftaná
aftur-slöngu fíflar

Pottabragur

Nú er sumarið siglt hér okkur frá
og sólargangur styttist óðum já
fyllist allt af fannfergi og snjó
finn ei neitt að brasa við og þó

Þá prílum í pottana, prúðbúin sloppum,
í heitpotta hoppum
og hömstrum dáldinn bjór
þó gefi yfir potta soldið sjór,
þá syngjum hátt í Drangsnesingakór.

Já bjór og hiti léttir okkar lund,
er laugin opnar förum kannsk'í sund,
það er ei hægt að heimta meir en það
handa Drangsnesingi eða hvað.

Með bráðlekar bjórdósir og blaðrið það háa og
glettinginn gráa
og góðra manna tal
við þurfum ekki annað betra val
en okkar kæra Drangsnespottahjal

Frostþoka

Frostið bítur föla kinn
fannahvíta slæðan
þokan flýtur fjörðinn inn
fram nú ýtist læðan

Lifrarbuff

Ég get ekki orða bundist, fyrir algjöra tilviljun (var að leita að uppskrift fyrir brauðsúpu) þá rakst ég á frábæra heimasíðu, sem heitir CookbookWiki og hvað haldiði að ég hafi fundið, jú uppáhaldsréttinn minn (og Önnu Heiðu systur), nefnilega Lifrarbuff. Þetta er þó líklega ekki nákvæmlega eins og uppskriftin hennar mömmu, en ég ætla að prófa þetta einhvern tíman.

Ég ætla hér með að þýða uppskriftina yfir á íslensku (furðulegt að þýða íslenska uppskrift yfir á íslensku):

Innihald:
500 gr. lambalifur
1/2 - 1 bolli hveiti
1 stykki egg
3 stykki hráar kartöflur
1/2 - 1 bolli mjólk
2 laukar (mamma notar ekki lauk held ég?)
1/2 teskeið matarsódi (e. baking powder, er það það sama?)
salt, pipar og krydd að eigin smekk

Fjarlægja allar himnur og æðar úr lifrinni og skræla kartöflurnar.
Skera niður laukinn, gróft.
Hakka saman lifrina, kartöflurnar og laukinn.
Blanda saman við hveitið, matarsódann og krydd.
Egg bætt út í.
Þynna blönduna með mjólk, þar til það lítur ógeðslega út.
Steikja báðum megin á heitri pönnu (um ein matskeið í hvert buff).

Berist fram með steiktum lauk, kartöflumúss, grænum baunum og rabbarbarasultu.
Spæld egg eru líka góð með réttinum. Mmmmm, hlakka til að prófa þetta einvhern tíman :)

Steiktur laukur, lifrabuff,
ljúfa baunin græna,
mússið besta, bætir stuff,
og barbasultan væna.


Langafi Guðjón

Einn af langöfum mínum hét Guðjón Sigurðsson (1867-1942) og kona hans og langamma mín hét Ingibjörg Þórólfsdóttir (1868-1955). Hér kemur smá vísnaþáttur um hann, tekið úr Strandapóstinum 5. árgangi (1971).

Hann var að vinna á Ísafirði og matmálstími var þegar sólin var yfir skarði sem þeir kölluðu Sultarskarð.

Hringlar nú með hörku garð
húsin skulum gista.
Sólin fer í Sultarskarð
á sumardaginn fyrsta.

Um hundinn Kol.

Heitir Kolur hundur minn
hefur bol úr skinni.
Er að vola auminginn
inni í holu sinni.

Bragðaði hvorki brauð né skol
best á heyjum alinn.
Nú þarf ekki að keyra Kol
klárinn vill í dalinn.

Spurður frétta, sagði hann allt af létta um réttarbyggingu (Skarðsrétt).

Nú á að taka nýjan sprett
nú er smátt að frétta,
nú á að byggja nýja rétt
nú er sú gamla að detta.

Óveður.
 
Ýta bítur óveðrið
allur þrýtur friður
þar sem hvíta kafaldið
koma hlýtur niður.


Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

43 dagar til jóla

Nóv. 2019
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband