Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Söngtextar

Afmælislimrur

Ég samdi nokkrar limrur fyrir stuttu - við lagið "Það gerðist hér suður með sjó".

Það var fertugsafmæli og hér má sjá nokkrar af limrunum - og þá þær limrur sem eru endurnýtanlegar (hinar lýsa afmælisbarninu).


Það hristir upp hjarta og streng
er hyllum við fertugan dreng
nú húrra við hrópum
já húrra og sópum
upp fortíð og minningar feng.

...

Í veiðiferð vaskur hann fór
með veiðistöng öngla og bjór
beit hreistraður biti
þá blóð lak og sviti
á öngli hékk stæltur og stór.

Hann skrönglaðist ofan í á
og elti um fossana þrjá
er girnið brast greip hann
um garpinn allsleipann
með sporðinum spriklaði frá.

Að eldast það er ekkert mál
því endalaust harðnar þitt stál
ættingjar, vinir
vænir og hinir
nú vætum við kverkarnar - SKÁL.


Siggavísur

Sögu áðan heyrði hrygga
hugsanlega er það frétt
á Interpoli sá ég Sigga
með sætan skallablett.
Neitar heimför, "NO WAY" segir hann
nýmóðins það þykir víst að henda banana.
Sérstakur á hýðissokki rann
Siggi hlær og skríkir títt og öskrar "NANANA"
Kaldir bíða, klefa smíða
kannske finnst þeim Siggi leim.
Siggi, Siggi, Siggi, Siggi
Siggi komdu heim.

Saka má nú dreng um digurð
en dásemd þykja augun blá
Hérna glittir hvergi'í Sigurð
hárstrían er grá.
"Hvað ert þú að sýsla Siggi minn?"
Sérstakur var hvass í bragði og tók í slappa kinn.
"Réttast væri' að flengja ræfilinn.
Reifstu svona buxurnar og nýja jakkann þinn?"
"Farðu ei í felur Siggi,
finna mun þig Interpol."
-Hann birtist loks á bar í London
í bleikum hlýrabol.


Þorrablótsbragur

Um síðustu helgi var þorrablót á Drangsnesi. Ég missti af því en fékk þó að vera með í því að semja smá texta fyrir nefndina:

Skemmtunin er búin brátt
og bráðum skulum dansa
svífum inn í salsað dátt
uns sveittu ennin glansa
 
Hrútspungana hristum glatt
sem helltum við í maga
hikstann eftir harðfisks smjatt
hákarl kann að laga.
 

Einn - tveir, nú öll við syngjum saman.
í svefninn ekki förum enn því nú er ennþá gaman.
hendumst brátt í hringdansinn
uns hverfur allur kraftur
Syngjum dátt og höfum hátt.
Hellt'u í glasið aftur.
 

Á hundraðfaldri ferð með glans
og fætur gólfið stappa
með mjaðmahnykk og magadans
matinn skaltu þjappa.
 

Við þökkum ykkur einlægt mjög
en enn mun ballið duna
djöflist nú við dágóð lög
á dansgólfið skal bruna
 

Einn - tveir, nú öll við syngjum saman.
í svefninn ekki förum enn því nú er ennþá gaman.
öll við prófum diskódans
uns dvínar allur kraftur
Syngjum dátt og höfum hátt.
Hellt'u í glasið aftur.


Venus hátt á himni skín

Fyrirsögnin á þessari frétt truflar mig hrikalega, þ.e. "Venus skært á himni skín". 

Ástæðan er einföld frá mínum bæjardyrum séð en ég efast um að margir taki undir að fyrirsögnin sé truflandi.

Það er tilvísunin í "Máninn hátt á himni skín" sem er í laginu Álfadans sem helst truflar mig. Eins og margir vita sem þekkja mig, þá er símhringingin í símanum mínum lagið Álfadans og um leið og ég las þessa fyrirsögn þá byrjaði lagið að óma í hausnum á mér, sem er í sjálfu sér allt í lagi því ég er búinn að vera með þetta lag á heilanum meira og minna í þau þrjú-fjögur ár sem ég hef haft þessa hringingu.

Það sem truflar mig mest er samt að orðið "hátt" er skipt út fyrir "skært". Ekki endilega af því að hún skín ekki skært sem hún gerir óneitanlega, heldur af því að fyrirsögnin "Venus skært á himni skín" stuðlar ekki rétt ("aha" segja einhverjir og nenna ekki að lesa meira frá svona ruglukolli).

Þeir sem þekkja lítið til bragfræði gætu bent á að það skipti ekki máli og það er vissulega rétt en það truflar mig samt. Þeir sem þekkja eitthvað til bragfræði en eru ekki fullnuma myndu hugsanlega áætla að nú stuðli skært og skín saman en svo er ekki. Ástæðan er sú að stuðlarnir sk og sk eru í lágkveðu og stuðlar standa aldrei báðir í lágkveðu svona í fyrstu línu.

Því fór ég að reyna í huganum að laga þessa fyrirsögn án þess að breyta innihaldinu, það er frekar erfitt og myndar kjánalegar setningar að endurraða textanum og urðu eftirfarandi textar til sem bragarbót:

  • Venus himni skært á skín
  • Skært á himni skín Venus
  • Himni skært á skín Venus

Allt saman réttur texti bragfræðilega, en frekar kauðslegt að sjá. En svo fór ég að rýna í fréttina og sá að þó Venus sé stjarna sem rís aldrei mjög hátt, þá er hún samt í hæstu stöðu þessa dagana (nánar tiltekið í gær).

Því kem ég með þá einföldu tillögu að best væri að breyta upprunalega textanum sem minnst og því legg ég til eftirfarandi fyrirsögn: "Venus hátt á himni skín".
Svo prjónaði ég við til að þetta yrði ekki vísnalaust:

Venus hátt á himni skín
hrikalega skært
sól hún eltir ennþá
svo undarlega vært.

Hátt á himni nú rís,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.

Nú er liðið annað ár
aldrei kemst hún nær.
Dátt samt dansinn stígur
dularfull og skær

Hátt á himin þá vill,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.

Í björtum dansi bíður enn
blikar djúp og skær.
Elífð lengi líður
hún lítið þokast nær.

Lágt á himni hún rís,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.


mbl.is Venus skært á himni skín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brúðkaupslag

Svava frænka bað mig um að semja um vinkonu sína (og fyrrverandi skólafélaga minn) hana Lindu, texta sem hægt væri að syngja í brúðkaupinu hennar. Hér er það, en það má syngja við lag Sálarinnar, Neistann. Þess ber að geta að Gunnhildur konan mín hjálpaði mér mikið með þetta, bæði með textann og söng fyrir mig lagið.

Brúðkaupslag fyrir Lindu og Kristinn
 
Linda, syndandi’um systrahaf
í útlöndum gekk um grund
loks gekk inn í Reykjalund
Kristinn, kurrandi miðjubarn
veiðistöngin við vinstri hönd
veikur nam hann þar lönd
hjörtun upp á rönd
 

Oooh
 

Neista, þau fundu neista
lokin var þá læknavakt
og Linda í hjúkkudragt. ooh
Neista þau fundu neista
hann var sætur í sjúkraslopp
og með sjúklega flottan kropp. ooh

Kristinn, veiddi þar vel í sitt bú
vængjum þöndum þau svífa nú
og nú eru þau orðin þrjú.
Linda, beit fast í beituna hans
og nú brúðhjónin stíga dans
nú er glaumur og glans
gestir falla’í trans
 

Oooh

Neista, þau finna neista
saman gengu kirkjugólf
og nú fylla þau hjartahólf. ooh
Neista, þau finna neista
og nú eru orðin hjón
og aðrir biðlar eins og flón. ooh
 

Höfum á þann hátt
að lyfta glösum hátt
og kalla hátt
brúðhjónanna skál, SKÁL.

Neista, þau finna neista
saman gengu kirkjugólf
og fylla hjartahólf. ooh
Neista, þau finna neista
og nú eru orðin hjón
og aðrir biðlar eins og flón. ooh

Neista, þau finna neista
saman gengu kirkjugólf
og fylla sitt hjartahólf. ooh
Oh, neista

Ooooh

Hamingjulag

Ég samdi texta við lag Jóns á Hrófbergi, sem hann sendi inn í samkeppni um hamingjulag Hólmvíkinga.

Hamingjudagur.

Himinninn er heiður græn er jörð
hreyfir varla sjó við Steingrímsfjörð.
Út við kletta buslar kópur dátt
í Kálfanesi vellur spóinn hátt.

Með spóanum við syngjum gleðisöng
sólarmegin göngum dægrin löng.
Þú og ég við elskum þetta lag
og þennan fagra hamingjunnar dag.

Í góðra manna gleðifans
gaman er að þessum dans,
stanslaust glymur stuðið hér,
stíga vil ég spor með þér.

Þúfudansinn síðan sýni þér
seinna þegar dimmir hér.
Slá þá saman hjörtun hátt,
hlægja mun þá spóinn dátt.

Pottabragur

Nú er sumarið siglt hér okkur frá
og sólargangur styttist óðum já
fyllist allt af fannfergi og snjó
finn ei neitt að brasa við og þó

Þá prílum í pottana, prúðbúin sloppum,
í heitpotta hoppum
og hömstrum dáldinn bjór
þó gefi yfir potta soldið sjór,
þá syngjum hátt í Drangsnesingakór.

Já bjór og hiti léttir okkar lund,
er laugin opnar förum kannsk'í sund,
það er ei hægt að heimta meir en það
handa Drangsnesingi eða hvað.

Með bráðlekar bjórdósir og blaðrið það háa og
glettinginn gráa
og góðra manna tal
við þurfum ekki annað betra val
en okkar kæra Drangsnespottahjal

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

243 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 52484

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband