Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísnaþættir

Árni Gestson

Hér yrkir Árni um Jörund bróður sinn, en hann var að vinna á Borðeyri í kringum Jólin eitt sinn:
 
Jörundur í læralaut
lagði sínum tólum
Einu barni í Önnu skaut
annan dag í Jólum.
 
Hér yrkir hann svo um einhvern annan bróður sinn, sem ég man ekki  nafnið á:
 
Eðlilegan ávöxt bar
allra fyrsta tækifæri
Af því hann að verki var
vinstra megin við hægra læri.
 
Svo skaut sýslumaður hund og Árni orti:
 
Það var eitt sinn tryggðartík
tíkina átti Gísli.
Tíkin var svo tófu lík
að tíkina skaut hann sýsli.

Þáttur um Jörund frá Hellu

Á tímarit.is (morgunblaðið 1975 bls 1 og bls 2) rakst ég á viðtal við Ragga og pabba hans Jörund frá Hellu á Selströnd og koma fram nokkrar stökur og ljóð eftir hann. Hér eru nokkrar vísur teknar orðrétt úr viðtalinu, mæli með lestri þess:

 

...visu gerði Jörundur er hann var eitt sinn á leið út á Drangsnes. Skammt frá veginum voru skötuhjú i miklum blíðskap, en þegar þau urðu vör við Jörund varð uppi fótur og fit, en þá kvað Jörundur:

Vappar kappinn vífi frá,
veldur knappur friður.
Happatappinn honum á
hangir slappur niður.


Svo komu ýmsar vísur:

Vildi ég feginn fyrir tvo
forlög regin bera.
Mætti ég greyið seinna svo,
sólarmegin vera.

Lát ei freistast til fárorða,
þó farartálma finnir.
Enginn getur allan veg
á gullskóm gengið

Hafirðu til þess þrek og þrá
að þræða mjóa veginn.
Eitt er vist þú verður þá
vegs að lokum feginn.

En ef breiða braut þú ferð,
beina og rennislétta.
Við endalokin eftir sérð,
að þú gjörðir þetta.

Til að lenda ekki i
ergi og mörgu f leira.
Reyndu að gjöra gott úr þvi,
gangtu á milli þeirra.


Kisu átti Jörundur einu sinni og varð hún 23 ára gömul. Var kisan feikilega hænd að Jórundi eins og eftirfarandi saga sýnir. Svo bar til eitt sinn að Jörundur réðst sýsluskrifari og fór því veturlangt frá Hellu. Þegar hann gekk niður klappirnar til að taka bátinn til Hólmavíkur fylgdi kisa honum eftir og settist á stein alveg niðri í fjörunni. Horfði hún síðan út eftir bátnum, en allan veturinn sást kisa hvergi og var þó oft gáð eftir henni, en þegar Jörundur kom heim að vori með bát frá Hólmavik var kisa mætt á klöppina til að taka á móti honum.
Þegar kisa lézt varð þessi visa til hjá Jörundi:

Svona týnast heimsins höpp,
horfin er kisa frá mér.
Nú verður ei framar loðin löpp
lögð um hálsinn á mér. 

 

 


Agnes Magnúsdóttir - vísnaþáttur

Margir kannast við síðustu aftöku á Íslandi, þegar Agnes og Friðrik voru hálshöggin. Færri vita að Agnes var hagyrt, þótt lítið sé til eftir hana. Hér fyrir neðan er allt sem ég fann eftir hana á timarit.is og á vísnavef Skagfirðinga:

Agnes Magnúsdóttir f.1795 - d.1830. Vinnukona víða um Húnaþing austur. Síðast hjá Natan Ketilsyni á Illugastöðum, Vatnsnesi og stóð að drápi hans. Tekin af lífi hjá Þrístöpum í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830 ásamt Friðrik Sigurðssyni frá Katadal.

Brags til vinna búin sért
bragur minn svo þegi.
Bragarkvinn þú bitur ert
brag ef spinnur eigi.

Hér var hún í haldi á Kornsá og vildi koma stúlku til að kveðast á við sig.

------------

Enginn lái öðrum frekt,
einn þótt nái að falla.
Hver einn gái að sinni sekt,
syndin þjáir alla.

Þessi hringhenda er sennilega eftir Agnesi Magnúsdóttur en einnig getur verið að Vatnsenda-Rósa eigi þar hlut að máli.

----------

Syndahrísið særir hart
seka mig án efa.
Guð er vís þó mein sé margt
mér að fyrirgefa.

---------

Skáld-Rósa, einnig kölluð Vatnsenda Rósa var ástfangin af Natani sem Agnes og Friðrik myrtu. Hún orti þetta til Agnesar:

„Undrast þarft ei, baugabrú,
þótt beizkrar kennir pínu:
Hefir burtu hrifsað þú
helft af lífi minu!"

Svaraði Agnes þá samstundis:

„Er mín klára ósk til þín,
angurstárum buhdin —:
Ýfðu ei sárin sollnu mín,
sólarbáru hrundin.

Sorg ei minnar sálar herð,
seka Drottinn náðar
af því Jesú eitt fyrir verð
okkur keypti báðar.


Sést meðal annars á þessu svari Agnesar, að hún hefir verið sér fyllilega meðvitandi um sekt sína.

(Alþýðublaðið 1934)

----------

Hér er önnur útgáfa af seinni vísunni hér fyrir ofan sem Agnes orti til Skáld-Rósu. :

Sálar minnar sorg ei herð,
seka Drottinn náðar,
afþví Jesús eitt fyrír verð
okkur keypti báðar.

(úr vísnaþætti Jóns Bjarnasonar - Dagur 1990)

Hvor vísan er rétt, veit ég ekki.

Ef einhver veit um fleiri vísur eftir Agnesi Magnúsdóttur, þá má sá hinn sami gefa sig fram. 


Ragnheiður langalangaamma

Á þessu ári eru 135 ár síðan ættmóðir Bæjarættarinnar fæddist, langalangaamma mín, hún Ragnheiður Halldórsdóttir frá Bæ á Selströnd. Maður hennar og langalangaafi minn var Guðmundur Guðmundsson og kynntust þau í Tungusveitinni við Steingrímsfjörð. En bjuggu síðan víða, meðal annars í Árneshreppi, Drangsnesi, Bæ á Selströnd (sem ættin er kennd við) og á Hólmavík. 

Ragnheiður var hagyrt eins og margir í Bæjarættinni og rakst ég á lítið ljóð eftir hana í Alþýðublaðinu frá 2. febrúar 1961 (sjá timarit.is).

Eg lít í lágan kofa
í ljúfri aftan ró.
Þar blundar bóndi lúinn
er björg að landi dró.

Þar kona er á kreiki
svo kvik á fæti og ung.
Hún ber inn vatn í bæinn
en býsna er fatan þung.

Og auga hvarfla um koddann
hins kæra og þreytta manns.
Já, mér ber ekki að mögla
því minni er hvíldin hans.

(Viðbót, þetta kvæði er mun lengra).

Veit einhver um vísur eftir Loft Bjarnason (1883-1956) frá Asparvík, er síðar bjó á Hólmavík?


Níðvísur

Leirulækjar-Fúsi f.1648 - d.1728 (Vigfús Jónsson) hafði greinilega ekki gaman af því að fara norður á Strandir, en um hann er sagt á vísnavefnum:

Vigfús Jónsson var frá Kvennabrekku í Dölum. Bjó á Leirulæk í Mýrasýslu. Mörg kvæða hans eru í klúrara lagi. Hann átti oft í erjum og er margt sagt af honum í þjóðsögnum. Heimild: Rímnatal II, bls. 141.

Í Steingríms vestur fór ég fjörð.
Förinni þarf ei hæla.
Ég sá þar hvorki sól né jörð
nema svarta og marga þræla.

Bjarnafjörður er sudda sveit
síst má henni hæla.
Óðinn valdi í þann reit
alla landsins þræla.

Nótt á Hóli sal ég Svans
síst mér þótti gaman.
Þar hafði skrítinn skollafans
skrattinn valið saman.

Sat þar inni Simbi og Björn
og Satans karlinn Ari.
Og önnur fleiri ýmis börn
að aungvum fékk ég svari.

Ævi stirða átti ég þá
um það lítið hirti.
Það var gleði, ég gat að sjá
í gluggann loks að birti.

Laxárdalur er lasta sveit.
Lifir oft af fönnum.
Ofaukið er í þann reit
öllum frómum mönnum.

Breiðavík er bannsett hrak
bæði við sjó og fjöllin.
Þar má hrísa kokkáls knak.
Konurnar vantar böllinn.

Grímseyjarvísur

Rakst á vísur eftir Braga Jónsson Hoftúnum í Staðarsveit (Refur bóndi) f.1900 - d.1980 á góðri heimasíðu sem heitir vísnavefur. Ég veit ekki meiri deili á honum en það sem stendur þar:

Bragi var fæddur í Reykjavík árið 1900. Foreldrar hans voru Jón G. Sigurðsson bæjarfógetaritari og k.h. Guðrún Þorsteinsdóttir. Hann flutti þriggja ára gamall með foreldrum sínum að Hoftúnum og bjó þar alla tíð síðan. Bragi var þekktur hagyrðingur og notaði skáldanafnið Refur bóndi. Bragi gaf út fjölmargar ljóðabækur auk þjóðlegs fróðleiks. Má þar nefna Neistar árið 1951, Hnútur og hendingar I og II. Neistar nýtt safn 1955. Hnútur og hendingar III 1957. Neistar úrval 1960. Mislitar línur I 1966 og Mislitar línur II 1967

Framan við Steingrímsfjörðinn,
fögur og glæst að sjá.
Grímsey úr Græðisdjúpi
gnæfir svo tignarhá.

Grímur þar fyrstur gisti
gleypti svo Ægir þann.
Síðan um allar aldir
eyjan er kennd við hann.

Sel-Þórir suður heiðar
sótti og farnaðist vel.
Skálm uns að lokum lúin
lagðist hjá Rauðamel.

Hér er hann að yrkja um Sel-Þórir, en um hann las ég þetta á Vestfjarðavefnum:
Grímur hét maður Ingjaldsson, Hróaldssonar úr Haddingadal, bróðir Ása hersis. Hann fór til Íslands fyrir norðan land og var um veturinn í Grímsey á Steingrímsfirði. Bergdís hét kona hans og sonurinn Þórir. Í Landnámu segir frá þá er Grímur reri til fiskjar ásamt húskörlum sínum og sveininum Þóri sem lá í selbelg í stafni fleysins. Grímur dró þá marbendil og bað hann spár. Marbendill svaraði: Eigi þarf eg að spá yður, en sveinninn sem liggur í selbelginum hann mun byggja land og nema, er meri yðar leggst undir klyfjum. Síðar um veturinn týndust Grímur og húskarlar hans í fiskiróðri. Þau feðgin fóru um vorið úr Grímsey yfir í Breiðafjörð og höfðu vetursetu á Skálmarnesi á Barðaströnd. Þar stóð merin Skálm uppi allan veturinn. Á nýju vori rættist spádómur marbendils því merin gekk fyrir þeim þar til þau komu til Borgarfjarðar, þar sem sandmelar tveir rauðir voru. Þar lagðist Skálm niður undir klyfjum og nam Þórir land að Rauðamel hinum ytra og varð höfðingi mikill. Hann var Sel-Þórir kallaður.

Langafi Halldór Guðmundsson

Einn af langöfum mínum hét Halldór Guðmundsson frá Bæ á Selströnd (1897-1975) og kona hans og langamma mín hét Guðrún Petrína Árnadóttir (1894-1974). Hér kemur smá vísnaþáttur um hann, skrifað upp af blöðum sem Mamma hafði skrifað niður. 

Um Grímsey

Grímsey hún er góð og fögur
gleður auga á stofuþili.
Engum finnst hún ennþá mögur
með ótal fulgatónaspili.

Til Bjarnveigar (en hún hafði málað Grímsey af snilld)

Litir eru á léreft settir
lagin reyndist höndin þín.
Allir drættir eru réttir
ástarþakkir vina mín.

Verk þér fari vel úr hendi
víst um nokkrar áraraðir.
Almáttugur oft þér sendi
ótal geisla um himnatraðir.

Til Auðar (21 jan 1968)

Ævin verði yndisleg
aldrei myrkrið svarta.
Leiði þig um lífsins veg
ljósið engil bjarta.

Rækjuveiði

Ekki gengur öllum vel
út á rækju núna.
Fá þeir steina fyllt af skel
fljótt þeir missa trúna.

Til Önnu Halldórsdóttir (Ömmu, jólin 1968)

Gleðileg jólin gefi þér
guð á himnum Anna mín.
Leiði þig nú ljóssins her
ljúf svo verði æfin þín.

Langafi Guðjón

Einn af langöfum mínum hét Guðjón Sigurðsson (1867-1942) og kona hans og langamma mín hét Ingibjörg Þórólfsdóttir (1868-1955). Hér kemur smá vísnaþáttur um hann, tekið úr Strandapóstinum 5. árgangi (1971).

Hann var að vinna á Ísafirði og matmálstími var þegar sólin var yfir skarði sem þeir kölluðu Sultarskarð.

Hringlar nú með hörku garð
húsin skulum gista.
Sólin fer í Sultarskarð
á sumardaginn fyrsta.

Um hundinn Kol.

Heitir Kolur hundur minn
hefur bol úr skinni.
Er að vola auminginn
inni í holu sinni.

Bragðaði hvorki brauð né skol
best á heyjum alinn.
Nú þarf ekki að keyra Kol
klárinn vill í dalinn.

Spurður frétta, sagði hann allt af létta um réttarbyggingu (Skarðsrétt).

Nú á að taka nýjan sprett
nú er smátt að frétta,
nú á að byggja nýja rétt
nú er sú gamla að detta.

Óveður.
 
Ýta bítur óveðrið
allur þrýtur friður
þar sem hvíta kafaldið
koma hlýtur niður.


Ádeila Eyjólfs.

Ég var að blaða í Feyki á kaffistofunni og rakst á vísnaþátt þar sem birtar eru vísur Eyjólfs Valgeirssonar frá Krossnesi um stjórnmálaflokkana, margar vísur og ég ætla að birta hér eina vísu um hvern stjórnmálaflokk eftir hann.

Vinstri grænir:

Ekki finnst mér vistarvænir Vinstri grænir
þeir þenja kjaft og þykjast kænir
en þrályndi þá skyni rænir.

Frjálslyndi flokkurinn:

Sjónhverfingar sýnist mér að Sverrir bralli
enginn treystir öldnum kalli
er áður ríkti á heðfarstalli.

Samfylkingin:

Samfylking er súr í skapi
sýnt er að hún fylgi tapi
þótt að Össur gleiður gapi
gini opnu - stoðar ei.
Og jóhanna er orðin öldruð mey.

Framsóknarflokkurinn:

Framsóknar er komið kvöld
kvíðinn hefur tekið völd
senn mun hún sín syndagjöld
sanngjörn á sig taka,
ef hún málum ekki snýr til baka.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Um eigin glöp öðrum kenna
öflugum stoðum renna
undir auðhringafansinn
æstan stíga þeir dansinn.


Afi Magnús

Ég má ekki gera Afa-mun, en hinn Afi minn hann Magnús heitinn Guðjónsson frá Innra-Ósi í Steingrímsfirði (hann lést um það leiti sem ég fæddist held ég) var mjög gott skáld (eða hagyrðingur eins og hann vildi orða það sjálfur). Í Strandapóstinum birtist í gamla daga nokkrar vísur eftir hann og þessar sem ég hendi inn núna eru úr fjórða árgangi (1970).

ÍSAVETUR 1967

Veitir grand og værðir tefur,
vonzku blandinn svipur þver.
Íslands fjandinn forni hefur
fast að landi troðið sér.

Fremur dapurt finnst mér hér,
fellur krap á hólinn.
Kulið napurt ætið er,
ef ylrík tapast sólin.

ÚTFALL Í BREIÐAFJARÐAREYJUM

Dregst frá landi drafnar band,
dignar andans stálið.
Æ, hver fjandinn, illt er stand,
ennþá vandast málið. 

VOR

Bjart er yfir breiðri sveit
bráðum kemur vorið.
Grær í hverjum gróðurreit,
greikkar sólin sporið.

Leysir snjóa, lifna blóm,
lindir í hlíðum hjala.
Fyllast loftin fugla róm,
fjólan skreytir bala.

ÉG

Lítið fékk ég fræðasáld,
finnst því hvergi slyngur.
Aldrei gat ég orðið skáld,
aðeins hagyrðingur.


Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband