Leita í fréttum mbl.is

Grímsey

Við Steingrímsfjörðinn stendur hún,
stoltur vörður lænu.
Rolluhjörð þar hljóp við brún,
hratt um börðin grænu.

Steiktur fiskur

Hér er ein einföld uppskrift af pönnusteiktum fiski, einn af mínum uppáhaldsréttum.

Hráefni (fyrir 2):
Fiskur, tvö lítil flök eða eitt stórt (þorskur og ýsa finnst mér best, lúða og annað ætti þó að sleppa).
Tvö stór egg.
Mjólk.
Rasp.
Krydd (karrí, fiskikrydd eða aromat).
Salt.
Smjör.

Meðhöndlun:
Skerð flökin niður í sirka 5*5 sentimetra bita.
Brýtur egg í skál, og setur smá slatta af mjólk útí, þeytir saman.
Í aðra skál seturðu rasp og krydd að eigin vali (karrí finnst mér best) og salt, blandar vel.
Bræðir smjör á pönnu við meðalhita.
Veltir fiskinum upp úr eggjahrærunni, veltir honum síðan upp úr raspblöndunni og setur á pönnuna.
Ætti að steikjast þokkalega á nokkrum mínútum (10 mín).

Meðlæti:
Kartöflur og hrásalat.
Gott er að byrja að sjóða kartöflurnar fyrst, því það tekur lengri tíma en hitt.
Einnig er gott að steikja lauk á pönnu til að hafa sem meðlæti.
Sumir vilja kokkteilsósu, en það á að vera óþarfi.

Stenst ég aldrei steiktan fisk,
stælir bragðsins lauka.
Kartöflur og dót á disk,
drauminn minn mun auka.


Vorstemning

Ilmur vorsins, hvarfið horsins
haf sem rjómi.
Kraftur þorsins, spóa sporsins,
sprettur blómi.

Ommuletta

Í Ommulettuna notaði ég:
5 egg
smávegis mjólk
tvær brauðsneiðar
smjör
hálfur laukur,
nokkrir sveppir,
1/3 blaðlaukstilkur
og 1 sellerístilkur.

Steikti laukinn, sveppina, blaðlaukinn og sellerí á pönnu upp úr smjöri.
Reif brauðið niður í 3*3 sentimetra bita og dreifði yfir grænmetið á pönnunni.
Handhrærði eggin og bætti smá mjólk út í til að þynna.
Dreifði því yfir grænmetið og brauðið og steikti báðum megin.

Þess ber að geta að í staðin fyrir grænmetið sem er minnst á hér að ofan, má nota annars konar grænmeti eða jafnvel kjöt eins og skinku, hangikjöt, pepperóni eða beikon sem dæmi.

Ommulettan er mjög góð
elduð, steikt og mölluð.
Prýðileg á pönnuglóð
passlega þá brölluð.

Heit brauðterta

Mamma kenndi mér að gera heita brauðtertu um daginn, nú er að sjá hvort ég muni hvernig ég gerði hana og mamma.

Hráefni: Miðast við stórt eldfast mót.
Brauð
Majónes (stór dolla)
Sýrður rjómi (hálf dolla)
Skinka (eitt stórt bréf, skorið niður)
Niðursoðinn aspas (ein dós)
Niðursoðið ananaskurl eða sveppir fyrir þá sem borða ekki ananas (ein stór dós eða tvær litlar)
Ostur

Meðhöndlun:
Mælt er með að brauðtertan sé búinn til nokkuð áður en hún er hituð til að brauðið nái að blotna.

Sullið:
Majónes, sýrður rjómi, niðurskorin skinka, bleytulaus aspasinn og ananaskurlið blandað og hrært saman.
Smávegis af ananassafanum sett út í til að sullið verði nógu blautt.
Brauðið rifið niður og sett á botninn á eldföstu móti.
Eitt lag af sulli smurt ofan á brauðið, brauð ofan á það, sull þar ofaná og svo koll af kolli þar til sullið er búið, endað á sullinu.
Ostur sneiddur og settur efst til að þekja.

Ofninn er síðan forhitaður upp í 180 gráður ef ég man rétt og svona hálftíma áður en á að fara að borða brauðtertuna þá er hún sett inn.
Hituð þar til ostur er orðinn brúnn.

Brauðtertan er bragðgóð mjög
bestur kokkur vertu.
Brauð og sullið set í lög
sjóðheit borðið tertu.


Ein fyrir svefninn.

Sofðu rótt í sælu þrótt
sængin ótt á kallar.
Eigðu gnótt í svæfils sótt
sælunótt á hallar.

Langafi Halldór Guðmundsson

Einn af langöfum mínum hét Halldór Guðmundsson frá Bæ á Selströnd (1897-1975) og kona hans og langamma mín hét Guðrún Petrína Árnadóttir (1894-1974). Hér kemur smá vísnaþáttur um hann, skrifað upp af blöðum sem Mamma hafði skrifað niður. 

Um Grímsey

Grímsey hún er góð og fögur
gleður auga á stofuþili.
Engum finnst hún ennþá mögur
með ótal fulgatónaspili.

Til Bjarnveigar (en hún hafði málað Grímsey af snilld)

Litir eru á léreft settir
lagin reyndist höndin þín.
Allir drættir eru réttir
ástarþakkir vina mín.

Verk þér fari vel úr hendi
víst um nokkrar áraraðir.
Almáttugur oft þér sendi
ótal geisla um himnatraðir.

Til Auðar (21 jan 1968)

Ævin verði yndisleg
aldrei myrkrið svarta.
Leiði þig um lífsins veg
ljósið engil bjarta.

Rækjuveiði

Ekki gengur öllum vel
út á rækju núna.
Fá þeir steina fyllt af skel
fljótt þeir missa trúna.

Til Önnu Halldórsdóttir (Ömmu, jólin 1968)

Gleðileg jólin gefi þér
guð á himnum Anna mín.
Leiði þig nú ljóssins her
ljúf svo verði æfin þín.

Jólastuðið

Aftansöngur aftanfrá
aftur-göngin stíflar
aftanstöngin aftaná
aftur-slöngu fíflar

Pottabragur

Nú er sumarið siglt hér okkur frá
og sólargangur styttist óðum já
fyllist allt af fannfergi og snjó
finn ei neitt að brasa við og þó

Þá prílum í pottana, prúðbúin sloppum,
í heitpotta hoppum
og hömstrum dáldinn bjór
þó gefi yfir potta soldið sjór,
þá syngjum hátt í Drangsnesingakór.

Já bjór og hiti léttir okkar lund,
er laugin opnar förum kannsk'í sund,
það er ei hægt að heimta meir en það
handa Drangsnesingi eða hvað.

Með bráðlekar bjórdósir og blaðrið það háa og
glettinginn gráa
og góðra manna tal
við þurfum ekki annað betra val
en okkar kæra Drangsnespottahjal

Frostþoka

Frostið bítur föla kinn
fannahvíta slæðan
þokan flýtur fjörðinn inn
fram nú ýtist læðan

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

98 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 54164

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband