Leita í fréttum mbl.is

Lifrarbuff

Ég get ekki orða bundist, fyrir algjöra tilviljun (var að leita að uppskrift fyrir brauðsúpu) þá rakst ég á frábæra heimasíðu, sem heitir CookbookWiki og hvað haldiði að ég hafi fundið, jú uppáhaldsréttinn minn (og Önnu Heiðu systur), nefnilega Lifrarbuff. Þetta er þó líklega ekki nákvæmlega eins og uppskriftin hennar mömmu, en ég ætla að prófa þetta einhvern tíman.

Ég ætla hér með að þýða uppskriftina yfir á íslensku (furðulegt að þýða íslenska uppskrift yfir á íslensku):

Innihald:
500 gr. lambalifur
1/2 - 1 bolli hveiti
1 stykki egg
3 stykki hráar kartöflur
1/2 - 1 bolli mjólk
2 laukar (mamma notar ekki lauk held ég?)
1/2 teskeið matarsódi (e. baking powder, er það það sama?)
salt, pipar og krydd að eigin smekk

Fjarlægja allar himnur og æðar úr lifrinni og skræla kartöflurnar.
Skera niður laukinn, gróft.
Hakka saman lifrina, kartöflurnar og laukinn.
Blanda saman við hveitið, matarsódann og krydd.
Egg bætt út í.
Þynna blönduna með mjólk, þar til það lítur ógeðslega út.
Steikja báðum megin á heitri pönnu (um ein matskeið í hvert buff).

Berist fram með steiktum lauk, kartöflumúss, grænum baunum og rabbarbarasultu.
Spæld egg eru líka góð með réttinum. Mmmmm, hlakka til að prófa þetta einvhern tíman :)

Steiktur laukur, lifrabuff,
ljúfa baunin græna,
mússið besta, bætir stuff,
og barbasultan væna.


Langafi Guðjón

Einn af langöfum mínum hét Guðjón Sigurðsson (1867-1942) og kona hans og langamma mín hét Ingibjörg Þórólfsdóttir (1868-1955). Hér kemur smá vísnaþáttur um hann, tekið úr Strandapóstinum 5. árgangi (1971).

Hann var að vinna á Ísafirði og matmálstími var þegar sólin var yfir skarði sem þeir kölluðu Sultarskarð.

Hringlar nú með hörku garð
húsin skulum gista.
Sólin fer í Sultarskarð
á sumardaginn fyrsta.

Um hundinn Kol.

Heitir Kolur hundur minn
hefur bol úr skinni.
Er að vola auminginn
inni í holu sinni.

Bragðaði hvorki brauð né skol
best á heyjum alinn.
Nú þarf ekki að keyra Kol
klárinn vill í dalinn.

Spurður frétta, sagði hann allt af létta um réttarbyggingu (Skarðsrétt).

Nú á að taka nýjan sprett
nú er smátt að frétta,
nú á að byggja nýja rétt
nú er sú gamla að detta.

Óveður.
 
Ýta bítur óveðrið
allur þrýtur friður
þar sem hvíta kafaldið
koma hlýtur niður.


Plokkfiskur

Ég eldaði plokkfisk um daginn, venjulega er hann gerður úr fiskafgöngum, en ekki átti ég neina afganga.
Ég sauð því þorsk og kartöflur.
Síðan tók ég fram stóra pottinn, bræddi slatta af smjöri í pottinum, hrærði hveiti út í, bætti við slatta af mjólk.
Þorskur, kartöflur, laukur, salt og pipar sett út í og látið malla.
Plokkfiskur tilbúinn. Ég fór að einhverju leiti eftir uppskriftum sem ég fékk á netinu.

Prýðilegur plokkfiskur
með pipar lauk og sósu
kartöflum og kúfdiskur
kokgleypti ég fullfrískur

Ádeila Eyjólfs.

Ég var að blaða í Feyki á kaffistofunni og rakst á vísnaþátt þar sem birtar eru vísur Eyjólfs Valgeirssonar frá Krossnesi um stjórnmálaflokkana, margar vísur og ég ætla að birta hér eina vísu um hvern stjórnmálaflokk eftir hann.

Vinstri grænir:

Ekki finnst mér vistarvænir Vinstri grænir
þeir þenja kjaft og þykjast kænir
en þrályndi þá skyni rænir.

Frjálslyndi flokkurinn:

Sjónhverfingar sýnist mér að Sverrir bralli
enginn treystir öldnum kalli
er áður ríkti á heðfarstalli.

Samfylkingin:

Samfylking er súr í skapi
sýnt er að hún fylgi tapi
þótt að Össur gleiður gapi
gini opnu - stoðar ei.
Og jóhanna er orðin öldruð mey.

Framsóknarflokkurinn:

Framsóknar er komið kvöld
kvíðinn hefur tekið völd
senn mun hún sín syndagjöld
sanngjörn á sig taka,
ef hún málum ekki snýr til baka.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Um eigin glöp öðrum kenna
öflugum stoðum renna
undir auðhringafansinn
æstan stíga þeir dansinn.


Lummur

Svona bý ég til lummur, mörgum finnst þær ansi góðar hjá mér.

Sýð hrísgrjónagraut* og nota afganginn af honum (því ég elda alltaf of mikið af hrísgrjónagraut).
Hræri eitt-tvö egg út í, bæti mjólk og hveiti út í, og reyni að búa til rétta þéttleikann.
Steikarpanna hituð á mesta hita og smá smjörklípa brædd.
Hendi smá slettu af deigi með stórri skeið á pönnuna og prófa að steikja, þynni með mjólk eða geri þykkara með hveiti þar til réttri þykkt er náð.
Steiki báðum megin í smá stund, þar til lumman er þokkalega brún, set á disk og strái sykri á heita lummuna.
Borið fram með kaffi og koníaki.

*Hrísgrjónagrautur: hrísgrjón soðin í vatni salti og smá smjöri, mikið af mjólk bætt útí og rúsínur að vild. Látið malla vel og lengi.

Grautur, egg, mjólk, smáklíp smjör
smotterí hrærð slumma
Steikj'á pönnu stuð og fjör
stemming hér er lumma.

Draumur.

Austur í Flóa fiskuðu vel
frændurnir í draumi,
í norðangarra næddi él
net drógu undan straumi.

Dagur hinnar íslensku tungu

Í dag við fyllum feitan kvið
úr fjallagómnum unga
já ég meina meiri svið
meiri íslensk tunga!

Afi Magnús

Ég má ekki gera Afa-mun, en hinn Afi minn hann Magnús heitinn Guðjónsson frá Innra-Ósi í Steingrímsfirði (hann lést um það leiti sem ég fæddist held ég) var mjög gott skáld (eða hagyrðingur eins og hann vildi orða það sjálfur). Í Strandapóstinum birtist í gamla daga nokkrar vísur eftir hann og þessar sem ég hendi inn núna eru úr fjórða árgangi (1970).

ÍSAVETUR 1967

Veitir grand og værðir tefur,
vonzku blandinn svipur þver.
Íslands fjandinn forni hefur
fast að landi troðið sér.

Fremur dapurt finnst mér hér,
fellur krap á hólinn.
Kulið napurt ætið er,
ef ylrík tapast sólin.

ÚTFALL Í BREIÐAFJARÐAREYJUM

Dregst frá landi drafnar band,
dignar andans stálið.
Æ, hver fjandinn, illt er stand,
ennþá vandast málið. 

VOR

Bjart er yfir breiðri sveit
bráðum kemur vorið.
Grær í hverjum gróðurreit,
greikkar sólin sporið.

Leysir snjóa, lifna blóm,
lindir í hlíðum hjala.
Fyllast loftin fugla róm,
fjólan skreytir bala.

ÉG

Lítið fékk ég fræðasáld,
finnst því hvergi slyngur.
Aldrei gat ég orðið skáld,
aðeins hagyrðingur.


Hvíta þekjan

Hvíta þekjan hylur allt
hríðarbylur lemur.
Hvíta draslið hvæsir kalt
hlýjuna burt kremur.

Leggst hún yfir lönd og strönd
lemur nú mitt eyra.
Frjósa bæði bönd og hönd
bölvað get ég meira.

Afi Höskuldur

Ég ætla hér að birta nokkrar vísur eftir Afa heitinn, Höskuld Bjarnason (frá Drangsnesi) að gamni, hann bjó til nokkrar og þarf ég að komast í vísnaboxið hennar Ömmu og fá að skoða það betur.

Um Ömmu orti Afi svona þegar hún var ellefu ára, eða eins og hann sagði sjálfur: "Hún mun hafa verið 10-11 ára þá og ekki datt mér í hug að hún ætti eftir að verða konan mín."

Halldórsdóttir Anna er,
yndisblíða snótin,
fremd og prýði fylgi þér,
fögur strandarósin.

Þegar Afi var 70 ára bjó hann til þessa:

Viljann ekki vantar hér,
vel svo duga megi,
en getan engin orðin er
hjá anga karla greyi.

Til Ömmu:

Lund er blíð og létt er geð
sem lífsins dyggðir sanna
engin betri önnur er
en yndislega Anna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

97 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband