Leita í fréttum mbl.is

Hola

Allt er núna út úr kú,
ekki mun ég vola,
minn er vinur napur nú,
næstum orðinn hola.


Sjóbaðsríma 2019

Sjórinn heillar, sæbúar,
syndum nú til lífsbótar.
Ertu kannski alveg snar?
Ískaldur er janúar!

Víða hljómar vantrúar
væla nokkrir þorpssbúar.
Frystir æðar febrúar,
finnast margir agnúar.

Föst í hlekkjum hugarfars
hríðarbyljar veðurfars,
oftast þykir magur mars
máttur lítill heilsufars.

Apríl kemur hverfur hor
kallar bráðum fagurt vor
greikka okkar gæfuspor
glæður lifna, vaknar þor.

Sjórinn hlýnar sí og æ
sælan eykst og vakna fræ
finnum aftur blíðan blæ
bráðnar klaki, dafnar maí.

Júnídagar dásemd ein
dáldið minna skelfur bein,
norðanáttin, nöpur, hrein
nú mun ekki kæla svein.

Sólin hitar sjóinn þinn
svífur yfir tjaldurinn
Júlí kyssir kroppinn minn
kitlar tásur makríllinn.

Seinna kemur sjávarrok
salt og marflær oní kok,
marglyttur með stungu og strok
stuða þig í ágústlok.

Í september við fljótum fín
fjúka bráðum trampólín,
hristist kroppur, hitinn dvín
heimta kaldir brennivín.

Í október er óður sjór,
öldur lemja bak og stjór,
Gruggast flóinn, glitrar snjór,
guten abend, drekkum bjór

Enn í sjónum böðumst ber,
bölvum soldið, þar og hér,
kóngur týnist, klakinn mer,
kaldur þykir nóvember

Desember með drjúgan kvið
drulluköld við örkum mið.
Í jökulkulda og jógafrið
Jólastjörnu myndum við.


Vetrarfönnin

Vetrarfönnin vekur þjóð
varla sést í stiku.
Þessi staka, glögg og góð
gleymist eftir viku.


Krumlur Kára

Hrikalegar krumlur Kára
klóra skegg á þaki.
Vorsins gras og grænan smára
geymir snjór og klaki.

Tjarnir stynja kaldan kost
klakinn brynjar lindir.
Eykur skynjun foldar, frost
frerans kynjamyndir


Ein og ein staka

Yfirlýsing:

Elsku fésbók ekki hirða
allt mitt líf og myndir.
Við það orðspor munið myrða.
Mínar felið syndir.

Hóflífi

Hóflífið það hreinsar þjó 
heilsufæðis njótið. 
Vonlaust eflaust verður þó
veganúarblótið.

Árið

Árið byrjar eins og stundum 
enginn balans finnur.
Hvergi finnst nú klaki'á grundum
Króatía vinnur.

Hnöttótt

Hnöttótt er og fráleitt flöt
fögur jörðin, góði.
Aumt er að skatta úldið kjöt
af því hvergi gróði.

 


Staka á dag

31. desember

Svífur yfir svifryksfárið
sumir vilja sprengja. 
Nú er búið enn eitt árið 
enn fer dag að lengja.

1. janúar

Nú er startar enn eitt árið
ansi margt má bæta:
Hlægjum bjartar, hunsum fárið
hættum að kvarta'og þræta.

2. janúar

Þraut er mikil það að spá í þetta veður.
Af sér klakann áin ryður,
ennþá samt er vetur miður.


Gáttaþefur

Móti vindi í myrkri fór
um móa líkt og refur,
læddist nær svo nasastór
nágrár Gáttaþefur.

Allur fnykur æsti hann
en óður varð samt kauði
ef um jólin ögn hann fann
ilm af laufabrauði.

Tryllingur hann tók öll völd
tók hann þá til fóta.
Hræðilegur karl um kvöld
kom með nefið ljóta.

Drógst að bæjum djöfull sá
drafaði við gættir,
húsbændur og hjúin þá
hjálpuðu ei vættir.

-

En núna svífur sætur hjá
sveiflar nettan þjóinn,
gasprar milt og glottir smá
gefur dót í skóinn.


Sjóbaðsvísa

Desember með drjúgan kvið
drulluköld við örkum mið.
Í jökulkulda og jógafrið
Jólastjörnu myndum við.


Stökur

Furðu oft þá finnst mér að
frekar lítið hafi val,
um hvað skal segja, hví er það,
og hvernig vísu enda skal.

--

Ef bragga fagran byggja á
þá brúkast góðir hanskar,
svo út í garði stingast strá
sem standast kröfur danskar.

--

Mjöður klístrast, mýkist smér
meyrir blístra vanir.
Á veggjum tvístrast kvæðakver
komu ístruflanir.


Mýrarsnípa

Fastar klípur, kælir bóg
kuldinn grípur trítil.
Situr hnípin, meyran mó
Mýrarsnípa lítil.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

121 dagur til jóla

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 54135

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband