Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ljóð

Tvö rándýr ljóð

Í lasönjunum finn ég frið
feitan strýk þá gjarnan kvið
er þörfum þjóna.
En breskir fúlsa Findus við
af frönskum Skjóna.

°-°-°-°-°-°-°-°-°-°-°-°-°-

Þó blóti þrautaþrjótar hæst
þursar mæðusvæða.
Úr hnakkanautahakki fæst
heilnæm gæðafæða.


mbl.is Deilt um hrossið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustvísa

Ljótur vindur leggst á kjarr,
lauf um polla kjaga
Játast friði Jónsi Gnarr,
Jókó Ó og Gaga.

mbl.is Lady Gaga þakkaði Jóni Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bárudans

Veturliðinn vær með strönd
vaggar kvið á báru.
Upp og niður öldurönd
ólmur miðar gáru.

Á hafsins þúfum hefur vald
hátt á skúfi dvelur.
Í gegnum úfinn öldufald
efstan kúfinn velur.

Bárur krappar brýtur hann
bylgju stappar glaður.
Berst sem tappi, bylgju rann
blikinn drapplitaður.

Upp að skör vill æður ná
enn til fjörs og náða.
Blessuð kjörin batna þá
en byrinn för mun ráða.

Af nógu er að taka

Gefum okkur gáfnahaf
þar gjöful veiðist spraka.
Þó nokkur prósent nagist af
af nógu er að taka.


mbl.is Andlegri getu hrakar eftir fertugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóla köks

Búinn að baka eftirfarandi:

Karamellu- og kókostoppa
kjarna hafradrauma
Loftkökur og lakkrístoppa
ljósbrúna randastrauma.

 Tounge

Éljagangur

Um sæinn dökkgrátt siglir þel
svalur rökkurs valdur.
Úr dimmum bökkum bláhvít él
blístrar nökkvinn kaldur.

Á flæðiskeri

Svart er skerið, sjónum ofar svífa máfar.
Fellur að og freyðir úði
fjöruþang er blautur púði.

Sjórinn gutlar, svefn er rofinn, salt í munni.
Reisir bakið skrokkur skældur
skerjagestur illa þvældur.

Fætur blotna, flæðiskerið fer að hverfa.
Hávært öskrar hraðfleyg þerna:
"Hvað ert þú að gera hérna?"

Gloppótt minni, glært og tómt sem gráa djúpið.
"Upp fórst skerið æði kaldur"
ansaði í fjarska tjaldur.

Spurning vaknar, sem ég vil þó vart um hugsa:
"Til hvers lífsins dreggjar dreypi
er dómur minn að sjór mig gleypi?"

Yfir skerið skella bárur, skrokkur titrar.
Hátt mót vindi kría kallar:
"Krí nú skolast bjargir allar"

Dílaskarfur skeri framhjá skríður öldu.
Kallar: "vinur komdu fljótur
köfum saman - gamli þrjótur".

Nú syndir hjá hin sæmilega síldartorfa
Sælt er líf og fengsæll flóinn.
Ég flaksa vængjum - stekk í sjóinn.

Næsta kröfuganga

Hvítir karlar krefjast bata
- kraftmiklir með snyrta barta,
Mun brátt verða gengin gata
- gömul biblía við hjarta.
Út í smóking einum fata
- arka senn með byssu svarta.

Með eða á móti

Fyrir dygga lesendur mína.

Hér fáið þið stöku til að henda á þá sem eru andstæðir skoðunum ykkar - nú geta pólitískar keilur farið að falla á báða bóga Wink

Fjandi ertu fáfróður
og flest þín orð sem smér.
Allstaðar er áróður
en einna mest hjá þér

Bætt við - önnur útgáfa:

Fjandi ertu fáfróður
flest rök hrökkva'af mér.
Allstaðar er áróður
en einna mest hjá þér

.

Svo er hér staka sem ætti að vera nothæf til að skora stig í þjóðmálaumræðunni: 

Við heyrum stundum röfl og raus
sú rökþurrð margan ærir.
Ef rökin verða rakalaus
sú röksemd engan nærir.

 

Svo voru það sléttubönd sem má lesa fram og til baka - eftir hvaða skoðun hentar hverju sinni: 

Fórnar lýðnum, aldrei er
önnum sínum vaxin.
Stjórnar illa, sjaldan sér
sekan bankalaxinn.

og þá afturábak:

Bankalaxinn sekan sér
sjaldan stjórnar illa.
Vaxin sínum önnum er
aldrei lýðnum fórnar.


Ábyrgð

Varla mun ég missa slag,
né mögla yfir raunum,
ef efla stjórar Íslands hag,
og ábyrgð fylgir launum.

Háum launum virðist nefnilega sjaldnast fylgja ábyrgð - eins og sagan sýnir.


mbl.is Engin réttlæting fyrir ofurlaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

158 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband