Leita í fréttum mbl.is

Vísnaleið

Ef ég vissi vísnaleið,
vísu rissið fyndi,
yrði hissa, hlægj'að neyð,
hátt svo flissa myndi.

En nú er skortur skáldalaust,
skelfing - orti lítið
vísnasportið heltómt haust,
horfið gortið - skrítið.

Skáldamjöður eyddur er,
yrklings töður fúlar.
Vísnafjöðrin flogin - ber,
fjörulöðrið smúlar.

Ein mynd af Skagafjöllunum

Sól í austri svífur létt,
sæt hún fjöllin baðar.
Skagatinda skreytir rétt,
og skinið fram hún laðar.

Á sjó

Út á skak með bogið bak,
bröltir flakið gamla.
Einn ég rak um öldulak,
á ægisbraki svamla.

Heyskapur

Í dráttarkagga kúldrast þegn
í kerrubragga heyin.
Eftir vagg og voða regn,
vættust baggagreyin.

Lofoten-fiskur

Það lá beinast við eftir að hafa veitt, slægt og flakað veiði helgarinnar að elda hana og ég vissi upp á hár hvaða uppskrift skildi verða fyrir valinu - Lofoten ofnbakaður fiskur (uppskrift sem ég hannaði sjálfur, þó sósan sé vissulega uppfinning einhvers annars. Sjúklega gott að mínu mati.

Hráefni:
Fiskur (þorskur/ýsa - aðrar fisktegundir hljóta að virka líka).
Brokkolí (líklega fínt að hafa papriku, blaðlauk, sveppi eða eitthvað slíkt eftir smekk).
Lofoten sósa (frá Toro).
Ostur.

Meðlæti:
Kartöflur og salat (blandað salat með olíulögðum fetaost er kjörið).

Ef búið er að flaka og roðfletta fiskinn þá tekur þessi réttur um það bil jafn langan tíma og kartöflurnar að sjóða (25-30 mín).
Meðan verið er að sjóða kartöflurnar þá er ofninn hitaður (180 gráður) og sósan hituð (uppskrift á pakka) og fiskurinn og brokkolíið skorið niður.
Síðan er náð í ofnfast mót og þunnt lag af sósu sett á botninn, fiskur ofan á það og brokkólí ofan á það. Endurtekið þar til efnið klárast. Lag eftir lag þar til fiskur, sósa og brokkólí er búið.
Ostur er síðan rifin niður eða skorinn og dreifður efst á fiskinn.
Bakað í ofni í um 20.
Á meðan kartöflurnar sjóða og fiskurinn er að bakast er góð hugmynd að nota tímann til að gera salat, leggja á borðið og slíkt.

Voila - geðveikt góður fiskréttur er tilbúinn.

Hafir náð í hetjufisk,
-heilnæmt mataræði.
Lófóten ég legg á disk,
ljúffengt guðafæði.


Um Blesa.

Ef ég ætti hest, þá myndi ég kalla hann Blesa. Hér eru tvær vísur um hann:

Hvass þú varst og hneggjandi,
á hröðum fótum þínum.
Núna ertu eggjandi,
oní potti mínum.

Forðum beist í fax mera,
fagur lékst með börnum.
Leiður mun ég laxera,
er leikur þú í görnum.

Um helvíti

Hérna eru nokkrar vísur um himnaríki og helvíti, ég trúi á hvorugt.

Á himnaríki hreint og gott
helgir vilja trúa.
Í helvíti er fjandi flott
frekar vil þar búa.

Ljóst er að það hlýtur að vera stanslaust grillstuð í helvíti, því er vonandi að nokkur syndug lömb komi reglulega niður til heljar, svo það verði nóg af kjöti til að grilla:

Fé sem bítur blómarönd,
úr bakgörðunum feitu
svamlar þá um syndalönd
og svífur á grillin heitu.

Erfiðara mun reynast að redda grænmeti til að hafa með kjötinu, helst eitthvað illgresi, þó það sé huglægt hvaða grös eru ill:

Lúpínan með ljúft sitt fas,
lend í hel víst gæti,
fúlar súrur, fíflagras,
fundið er meðlæti.

En Áfengi er böl, þannig að það verður nóg af bjór til að drekka, sem betur fer.

Sléttubönd

Sléttubönd má lesa afturábak og áfram, skemmtilegast ef það breytir eitthvað um merkingu, hér er tilraun.

Sjaldan drekkum, aldrei öl,
eða bruggið notum
Kaldan drykkinn bjórsins böl
belginn ekk'í potum.

Afturábak:
Potum ekk'í belginn böl,
bjórsins drykkinn kaldan.
Notum bruggið eða öl,
aldrei drekkum sjaldan.

Lítil vísa

Inn í bloggið læðist ljóð,
lítil roggin, klárust.S
em var hoggin hér af móð,
hljóð úr goggi bárust.

Hamingjulag

Ég samdi texta við lag Jóns á Hrófbergi, sem hann sendi inn í samkeppni um hamingjulag Hólmvíkinga.

Hamingjudagur.

Himinninn er heiður græn er jörð
hreyfir varla sjó við Steingrímsfjörð.
Út við kletta buslar kópur dátt
í Kálfanesi vellur spóinn hátt.

Með spóanum við syngjum gleðisöng
sólarmegin göngum dægrin löng.
Þú og ég við elskum þetta lag
og þennan fagra hamingjunnar dag.

Í góðra manna gleðifans
gaman er að þessum dans,
stanslaust glymur stuðið hér,
stíga vil ég spor með þér.

Þúfudansinn síðan sýni þér
seinna þegar dimmir hér.
Slá þá saman hjörtun hátt,
hlægja mun þá spóinn dátt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

98 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 54164

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband