Leita í fréttum mbl.is

Dagur

Svona gæti dagurinn í dag verið:

Borða, glápa, bursta, sofa,
í bóli, rápa, vinna.
klósett sápa, kveikj'á rofa,
kvæðadrápu sinna.

Vetrarveður

Kófið núna kyngir niður,
kólnar, hvítnar jörðin.
Datt af himni dún og fiður,
dúnsængs sprakk víst gjörðin.

Vöflur

Í gær gerði ég vöflur, fékk uppskrift frá Mömmu. Hún þurfti þó að hræra deigið í huganum því hún átti það ekki niðurskrifað.

En svona var það:
5 bollar hveiti
1/2 bolli sykur
1 matskeið vanilludropa (ég minnkaði það í 2 teskeiðar reyndar).
1 teskeið matarsódi
1 teskeið ger
200 g smjörlíki
2-3 egg (ég hafði þau 3)
Mjólk

Smjörlíkið brætt, allt blandað saman og hrært. Mjólkin er notuð til að ákvarða þykktina, spurning með að setja 1-2 bolla fyrst svo hægt sé að hræra og bæta svo smávegis við þar til þykktin er góð fyrir vöflur. Ef of mikil mjólk er sett þá er komið pönnukökudeig.

Líklega er þetta deig miðað við 10 manns.

Sykur hveiti líkisljómi,
látt í mjólk og egg
Sætar vöflur, sulta, rjómi,
sest hann í þitt skegg.


Níðvísur

Leirulækjar-Fúsi f.1648 - d.1728 (Vigfús Jónsson) hafði greinilega ekki gaman af því að fara norður á Strandir, en um hann er sagt á vísnavefnum:

Vigfús Jónsson var frá Kvennabrekku í Dölum. Bjó á Leirulæk í Mýrasýslu. Mörg kvæða hans eru í klúrara lagi. Hann átti oft í erjum og er margt sagt af honum í þjóðsögnum. Heimild: Rímnatal II, bls. 141.

Í Steingríms vestur fór ég fjörð.
Förinni þarf ei hæla.
Ég sá þar hvorki sól né jörð
nema svarta og marga þræla.

Bjarnafjörður er sudda sveit
síst má henni hæla.
Óðinn valdi í þann reit
alla landsins þræla.

Nótt á Hóli sal ég Svans
síst mér þótti gaman.
Þar hafði skrítinn skollafans
skrattinn valið saman.

Sat þar inni Simbi og Björn
og Satans karlinn Ari.
Og önnur fleiri ýmis börn
að aungvum fékk ég svari.

Ævi stirða átti ég þá
um það lítið hirti.
Það var gleði, ég gat að sjá
í gluggann loks að birti.

Laxárdalur er lasta sveit.
Lifir oft af fönnum.
Ofaukið er í þann reit
öllum frómum mönnum.

Breiðavík er bannsett hrak
bæði við sjó og fjöllin.
Þar má hrísa kokkáls knak.
Konurnar vantar böllinn.

Fjöllin

Kalla ég í klettasnösu
og kyrja fjöll á meðan
þau voru í sumar græn af grösu
og glæst þau voru héðan
en núna eru þau föl af flösu
og frekar blaut að neðan.

Tærast blómin týnd í roki
á tindanálinni.
Það helltist niður hveitipoki,
úr himnaskálinni.

Grímseyjarvísur

Rakst á vísur eftir Braga Jónsson Hoftúnum í Staðarsveit (Refur bóndi) f.1900 - d.1980 á góðri heimasíðu sem heitir vísnavefur. Ég veit ekki meiri deili á honum en það sem stendur þar:

Bragi var fæddur í Reykjavík árið 1900. Foreldrar hans voru Jón G. Sigurðsson bæjarfógetaritari og k.h. Guðrún Þorsteinsdóttir. Hann flutti þriggja ára gamall með foreldrum sínum að Hoftúnum og bjó þar alla tíð síðan. Bragi var þekktur hagyrðingur og notaði skáldanafnið Refur bóndi. Bragi gaf út fjölmargar ljóðabækur auk þjóðlegs fróðleiks. Má þar nefna Neistar árið 1951, Hnútur og hendingar I og II. Neistar nýtt safn 1955. Hnútur og hendingar III 1957. Neistar úrval 1960. Mislitar línur I 1966 og Mislitar línur II 1967

Framan við Steingrímsfjörðinn,
fögur og glæst að sjá.
Grímsey úr Græðisdjúpi
gnæfir svo tignarhá.

Grímur þar fyrstur gisti
gleypti svo Ægir þann.
Síðan um allar aldir
eyjan er kennd við hann.

Sel-Þórir suður heiðar
sótti og farnaðist vel.
Skálm uns að lokum lúin
lagðist hjá Rauðamel.

Hér er hann að yrkja um Sel-Þórir, en um hann las ég þetta á Vestfjarðavefnum:
Grímur hét maður Ingjaldsson, Hróaldssonar úr Haddingadal, bróðir Ása hersis. Hann fór til Íslands fyrir norðan land og var um veturinn í Grímsey á Steingrímsfirði. Bergdís hét kona hans og sonurinn Þórir. Í Landnámu segir frá þá er Grímur reri til fiskjar ásamt húskörlum sínum og sveininum Þóri sem lá í selbelg í stafni fleysins. Grímur dró þá marbendil og bað hann spár. Marbendill svaraði: Eigi þarf eg að spá yður, en sveinninn sem liggur í selbelginum hann mun byggja land og nema, er meri yðar leggst undir klyfjum. Síðar um veturinn týndust Grímur og húskarlar hans í fiskiróðri. Þau feðgin fóru um vorið úr Grímsey yfir í Breiðafjörð og höfðu vetursetu á Skálmarnesi á Barðaströnd. Þar stóð merin Skálm uppi allan veturinn. Á nýju vori rættist spádómur marbendils því merin gekk fyrir þeim þar til þau komu til Borgarfjarðar, þar sem sandmelar tveir rauðir voru. Þar lagðist Skálm niður undir klyfjum og nam Þórir land að Rauðamel hinum ytra og varð höfðingi mikill. Hann var Sel-Þórir kallaður.

Djúsí pasta

Hérna er einn góður pastaréttur.

Hráefni fyrir 2-3 myndi ég áætla, tekur um korter að framreiða.
Pasta slaufur (300 g)
Beikonsmurostur (tæp dolla)
Rjómi (1/4 lítri)
Rauð Paprika pulsur (5 stykki)
pepperoni (hálft bréf)
skinka (hálft bréf)

Pastað soðið og pannan eða potturinn hitaður.
Paprikan, pylsurnar, pepperoníið og skinkan eru skorin í bita.
Pylsurnar steiktar á pönnu í smá stund einar, skinkunni og pepperoní bætt útí, steikt í smá stund síðan er beikonostinum bætt út í og hann látinn bráðna.
Rjómanum bætt við og loks er paprikan sett útí.

Þessu er svo blandað saman við pastað.
Líklega væri fínt að hafa hvítlauksbrauð með þessu, gleymdi að kaupa, en fínt samt.

Pastasullið pulsubland,
Pepperóní, rjómaslettu
Paprika og pottabrand,
passlega á diskinn settu.

Haustmynd

Í kjarrinu er karri einn,
að kroppa ber og lyngið.
hrafn í flýti svífur seinn,
að setja krummaþingið.

Himininn er heiður mjög
hreyfist varla bára,
sjófugl bærir sjóalög
og sést þá lítil gára.

Rauðgult kjarrið slær á slétt
slípað marið tæra.
Litar sólgult lyngið blett
í lognstillt hafið væra.

Á hvolfi fjöllin mála mar,
er mætast haf og tindar.
Í hlíðum ómar svansins svar,
sólin fagra blindar.

Haust

Ilmur haustsins heilsar mér
hrikta lauf í gjólu.
Týna kannski blá þau ber,
er blána neðan hólu.

Best er angan berjalings
er bærast haustsins vindar.
Hressir ómur hrafnaþings
hvítna fjalla tindar

Gult og rautt er laufblað laust,
laust í vindi skoppar.
Litafegurð, hreint er haust
hreinir fjallatoppar.

Snjór í fjöllum

Þó norðan blautur garrinn geri,
grámygluleg fjöllin,
þá er ekki ennþá freri,
aðeins tindamjöllin.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

98 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 54164

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband