Leita í fréttum mbl.is

Ein vísa

Vagg um grýtta vegi níðs
veldur hvergi leiða.
Grafa myndi gleði lýðs
gatan ofurbreiða.

Nokkrar vísur

Yfir valdi vits og róms
vísan faldar grímu.
Innihaldið er til dóms
ef þú tjaldar rímu.

Formið greip til fastataksins,
og flutti kvæði.
Líkt og tindar bárubaksins
brotna gæði.

Stórt víst þykir þetta bú,
þó hann lítið kjósi.
Hann á snekkju, hest og kú
en hírist enn í fjósi.

Frostið bítur föla kinn,
fingurtítur dofna
í voða flýti vafra inn
og varma hlýt við ofna

Það hafa liðið ár og öld,
enn þó les ég kvæði,
lauk þeim flestum ljúft í kvöld,
og ligg ég því í næði.

Þegar vinnan þig vill buga
þú þrælar til að efla sjóð,
er gott að láta ljóð í huga,
lífga uppá dagsins slóð.

Kuldaljóð.

Ef kaldir vindar blása birtist blautur dropi
seytlar hann úr augnaopi
eins og lítill hrognastropi.

Nú er úti napurt mjög og nístir Kári,
brytja má úr blautu hári,
bíta kinnar frost í tári. 

Eyðublað 9

Kerfið er erfitt, en stundum neyðist maður til að klífa þann tind.

Leiðin hún er ljót og erfið,
löngum heftir pappír för,
en strimla vill víst stimpla kerfið
stundum með því bætast kjör.

Kvöldvísur

Synir mínir eiga það til að vilja ekki fara að sofa á skynsamlegum tíma, ég bjó til vísu með aðstoð frá unnustu minni og breyttum við vísunni síðan aðeins.

útgáfa 1:

Þegar kvöldar víst ei vil
verma köldu bælin
þó við höldum hátta til
heyrast nöldurvælin

útgáfa 2:

Nú í höldum háttafley
heyrast nöldurvælin
vart nú kvöldar viljum ei
verma köldu bælin.

Giljagaur

Giljagaur kemur í nótt.

Giljagaur er annar í röð jólasveinanna. Hann faldi sig í fjósinu og fleytti froðuna ofan af mjólkurfötunum þegar enginn sá til. Í gömlum heimildum er getið um Froðusleiki og ekki er ólíklegt að þar sé sami sveinn á ferð.
(jolamjolk.is)

Annar birtist giljagaur
gráðugur með vörtu
í skammdeginu skakkur maur
skreið úr gili svörtu

Froðulykt hann fann við ból
ef feit var mjólkurbeljan
fór á hné í fjós um jól
fituþörf að kvelj'ann.

Makaður í mykjusaur
í myrkri allvel falinn
maraði við mjaltastaur
á mjólkurfroðu alinn

Veiddi hann úr vænum lög
vænsta froðusopann
slefaði þá sláninn mjög
og sleykti upp mjólkurdropann

En núna er hann þægur þræll
þambar kók um jólin
föngulegur feitur sæll
fer í rauða kjólinn.

Stekkjarstaur

Í nótt kemur Stekkjarstaur til byggða, ég fæ nú líklega ekki í skóinn út af þessu kvæði.

Stekkjarstaur kemur fyrstur jólasveinanna. Hann var sagður sjúga mjólk úr kindum en hafði staurfætur á báðum svo heldur gekk það brösuglega. Stekkur er gamalt heiti á sérstakri fjárrétt og þaðan dregur sveinninn nafn sitt. (jolamjolk.is)

Fyrstur kom hann stekkjarstaur
við stekkinn sást í kauða
krafsandi í kindasaur
kleip oft ær til dauða

Viðbjóðslegur veltist um
vænar fann oft rollur
ef að fannst ein ellihrum
enginn drykkjartollur

Blóðmjólk drakk hann undir á
út í fjársins stekkjum
ekki lét hann segjast sá
þó seig væri og í kekkjum

Í sveini heyrðist sælutíst
súr var júgurrjómi
sog til blóðsins vildi víst
varla taldist sómi

En núna er hann aumur þræll
yndæll sést um jólin
stífur er og stirður hæll
og stígur í rauða kjólinn.

Að vera barn

Að vera barn er púl og puð,
pissa, kúka, æla.
Toga í hár og totta snuð,
teyga mjólk og skæla.

Eyjafjörður

Ein vísa eftir mig birtist á dagur.net, algjörlega að óvörum, hún er svona og vonandi taka Sunnlendingar það ekki illa :o)

Yndislegir Eyfirðingar
una flestir glaðir hér,
öfund sýna sunnlendingar,
sinu hér af drýpur smér.

Ekkert

Engar fréttir, ekkert bloggar,
algjör fúi.
Eins og hauslaus hani goggar,
Höski Búi

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

98 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 54162

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband