Leita í fréttum mbl.is

Kári

Kári ljótur losar tak,
linast örstutt kraftur,
kúrir smá svo kreppir bak
og krumlu herðir aftur.

Jólakveðjan 2022

Jólakveðjan:
 
Hér er allt svo hátíðlegt
hrímhvít snjókorn falla.
Jólin fín í friði og spekt
fanga gleði alla. 
 
Tannviðgerðavísa: 

**** kæri kann allflest
nú kulnuð bærast tröllin,
er brosið skært frá Búdapest
birtu slær á fjöllin.

Draumar og gróði

Dáleiddur í draumi svíf,
dreymi'um strönd og bjórinn
og taka mynd á Teneríf,
af tásum fyrir kórinn.
 
Ef sængin mín er mjúk og hlý
meðan stormar blása,
þá dreymi sæll um sól á ný
og sand á milli tása.
 
og limra um gróða
 
Minkabú máttu víst rofna
og munaður laxeldis dofna,
en eflaust munt græða
og aurarnir flæða,
ef við ströndina sjóböð munt stofna.

Norðurljós og eilíft haust

Norðurljós

Vonir birtast, sárt en satt.
er Sólin lemur harðar,
og sameindirnar sullast hratt
um segulhvolfið Jarðar.
 
Eilíft haust

Sólin rís kinnroðalaust
rétt svo yfir sænum.
Þó ei bríni þíða raust
þiðnar snjór í blænum.

Árið skríður endalaust,
eilíf virðist saga.
Haust og haust og haust og haust,
haust er alla daga.
 
Mannvonska
 
Útlendinga úthýsing
mun arfleifð ráðherra.
Morkin verður mannlýsing,
á mætum óþverra.
 
Gamlir pungar
 
Barma sér og bölva, klúrir,
bláu ungarnir.
Grjótharðir nú gerast súrir,
gömlu pungarnir.

Stökur

Þó að myrkrið mæti skítt
og mögli frekt,
framundan er haustið hlýtt
og hryssingslegt.
 
Til Mömmu: 
 
Dagur birtist, bjartur, léttur
blítt er haust á skinni.
Eyjan fögur, Flóinn sléttur,
fagna Auju sinni.

Konungleg kveðja

Í dagsins amstri dreymi smá
um drykkinn fagurbrúna.
Fullur er af ferðaþrá
fæ mér kaffi núna.

Notalegt var niðrá strönd,
næs við heiðarbrúna.
Kaldir toppar, kólna lönd
kaffi fæ mér núna.

Það er hvorki ljóst né leynt
hvað lífsins grín vill fúna.
Fráleitt alltof finnst mér seint
að fá mér kaffi núna.

Nokkrar stökur

Tófuhjalli

Sætt var hræ við sjávarhlein
nú sit ég upp til fjalla,
fjaðrir tæti, bít ég bein
og bryð á Tófuhjalla

Sumarfríið

Sumarfríið er víst oft,
ætlað til að njóta,
tærnar allar upp í loft,
og í pottum fljóta.

Rugla
 
Semjum kvæði um sól og hross,
sjávaröldu, fugla,
verðbólgu og varakoss,
vænlegt er að rugla.

Lúsmý
Milli frekna, fann ég sjóð,
feygð mun burtu draga,
volgt og görótt gæðablóð,
gómsætt fyllir maga.

Hnattræn hlýnun
Vissulega viljum grið
vargöld burtu hrindum,
börnin munu berjast við
 bæta'úr okkar syndum.

Brúðkaupsafmæli, fjögur ár
 
❤️🌹
Ber af öllum, fær við flest,
feikn er hennar máttur.
Konan mín er bara best,
byrjar fimmti þáttur.

Fýluvísur

Þeir sem dreyma drjúga hít
af dóli ferðamanna
fá víst aðeins aur og skít
og óbragð milli tanna.
 
-----
 
Yfir mönnum mæddur er,
að Manú grasið sleiki,
níðir aðra þursinn þver,
þurrt nú grætur Eiki.

Mórall yfir markaþurrð,
man hann fyrri siði,
um fyrritíða fótaburð
sem farinn er hjá liði.

Hryllir Eika hengiflug,
hans mun liðið jagast.
Eftir kannski áratug,
ætti samt að lagast.

Heilræðavísur

Viðkvæma þú vernda skalt,
vonlitla og snauða.
Hjálpin getur hundraðfalt
hindrað eymd og dauða.

Tærast mun og teljast best
tölvuna að slökkva,
líðan eykur, læknar flest
að labba um og stökkva.
 
Blóðug sporin bleyta for
blæðir fugl í kjafti.
Glæðist vor við gæfuspor
að geyma kött í hafti.

Ýmsar stökur

Draumaráðning:
Fjarska glögg er framtíð dökk,
flækjustigið lítið þó.
Allt til heljar, myndar mökk,
móða hylur gæfuþjó.
 
Fækkun sýslumanna:

Sýslupeyjar, einn og átta
aldrei týna skjölunum.
Víða'um land þeir vilja þrátta
vasklega í sölunum.

Nonni arkar utangátta
á að fækka hölunum.
Þá kom frétt í fréttatímum
og fárast yfir tölunum.
 
Grútur:
Ljóta grútinn þarf að þvo,
þurrka upp og vinda
Leggja í bleyti, lækna - svo
laskist siðarblinda.
 
Vísnagáta:
Liljuhvítt og ljósbrún skel.
Leikföng nokkuð snúast.
Glæsta fólkið grýtir vel.
Glás í búðir hrúgast.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband