Leita í fréttum mbl.is

Frostburknar

Í morgun:

Út úr bílnum illa sá
mér elsku vinur, trúðu,
því frammí uxu frjálsir þá
frostburknar á rúðu.


Kuldi

Frostrós brynnir, kuldakast
kelur skinn á sveini,
nartar kinnar, nagar fast
nístir inn að beini.


Litla hagyrðingamótið og áramótastaka

Göngumaður ansi oft
er utanvega.
Yndislegt er útiloft
og útilega.
 
Mjúkan snjó og myrkrið svart
skal meta og vega.
Nauðsyn stundum einnig er
smá innilega.
 
Fjölgun okkar er ei grín
og eykur trega.
Samt er ávallt ansi brýn
smá uppilega.
 
-----
 
 
Allt er núna orðið hreint
áramótadraslið.
Hríðin, landið hefur skeint
hefst nú kuldabaslið.

Til Jóa Gunna

Dökkt er yfir Drang og Flóa
deyfa himinn skýin grá.
Kaldir vindar væta móa
vökna fellin stór og smá.
 
Í stríði og friði stendur meyjan
sterkbyggð verndar fjörðinn þinn,
faðmandi er fagra Eyjan
í fögrum kjól og þerrar kinn.
 
Í fjarska þagnar fuglakliður
frændi, þú varst okkur kær.
Helgur sé þinn hinsti friður
hjartans kveðju sendir Bær

Ársuppgjörið

Nú er búið ferlegt fár
fúlt af ýmsu tagi.
Verra þótti en önnur ár
undir meðallagi.

 

Aukastaka samin sama dag:

 

Hér birtist stundum bölvað hnoð
blandað illu geði.
Drulla, skítur, mykja, moð
með miklu andans streði.


Sigurður Dýralæknir

Orti smá til heiðurs Sigurði Sigurðarsyni fyrir stuttu:
 
Hér skal kveða karli brag
kitlar gleðistrengur
Slær á hnéð sér hress í dag
heill er eðaldrengur.
 
Gæðapiltinn sóma sé
síst er spilltur strákur.
Læknar gyltur, gleður fé
góður stilltur fákur.
 
Drekkur ráð um dýrin flest
doktor, gráðum skrýddur.
Skepnum þjáðum bjargar best 
býsn af dáðum prýddur.
 
Lífið glæðir, ljúf er værð
lækur flæðir glaður.
Óskir gæða frá oss færð
færi kvæðamaður.

Stutt vísa um Gáttaþef

Ískalt loftið kyssir kinn
kyngir snjónum niður.
Gáttaþefur gægist inn,
gamall er sá siður.


Desember

Huggulegt og hlýtt nú er
hvína ekki gluggar.
Dafnar myrkur desember
dansa langir skuggar.


Bank

Lúkan kalda lyftir vönd
ljót og hvít er mugga.
Veturinn með visna hönd
var að banka'á glugga.

Móðir Theresa

Kredit þó minnki á korti
og kjararáð dragi úr skorti
eins og Theresa forðum
er ei forsetinn í orðum
með taumlausu grobbi og gorti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

248 dagar til jóla

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband