Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Venus hátt á himni skín

Fyrirsögnin á þessari frétt truflar mig hrikalega, þ.e. "Venus skært á himni skín". 

Ástæðan er einföld frá mínum bæjardyrum séð en ég efast um að margir taki undir að fyrirsögnin sé truflandi.

Það er tilvísunin í "Máninn hátt á himni skín" sem er í laginu Álfadans sem helst truflar mig. Eins og margir vita sem þekkja mig, þá er símhringingin í símanum mínum lagið Álfadans og um leið og ég las þessa fyrirsögn þá byrjaði lagið að óma í hausnum á mér, sem er í sjálfu sér allt í lagi því ég er búinn að vera með þetta lag á heilanum meira og minna í þau þrjú-fjögur ár sem ég hef haft þessa hringingu.

Það sem truflar mig mest er samt að orðið "hátt" er skipt út fyrir "skært". Ekki endilega af því að hún skín ekki skært sem hún gerir óneitanlega, heldur af því að fyrirsögnin "Venus skært á himni skín" stuðlar ekki rétt ("aha" segja einhverjir og nenna ekki að lesa meira frá svona ruglukolli).

Þeir sem þekkja lítið til bragfræði gætu bent á að það skipti ekki máli og það er vissulega rétt en það truflar mig samt. Þeir sem þekkja eitthvað til bragfræði en eru ekki fullnuma myndu hugsanlega áætla að nú stuðli skært og skín saman en svo er ekki. Ástæðan er sú að stuðlarnir sk og sk eru í lágkveðu og stuðlar standa aldrei báðir í lágkveðu svona í fyrstu línu.

Því fór ég að reyna í huganum að laga þessa fyrirsögn án þess að breyta innihaldinu, það er frekar erfitt og myndar kjánalegar setningar að endurraða textanum og urðu eftirfarandi textar til sem bragarbót:

  • Venus himni skært á skín
  • Skært á himni skín Venus
  • Himni skært á skín Venus

Allt saman réttur texti bragfræðilega, en frekar kauðslegt að sjá. En svo fór ég að rýna í fréttina og sá að þó Venus sé stjarna sem rís aldrei mjög hátt, þá er hún samt í hæstu stöðu þessa dagana (nánar tiltekið í gær).

Því kem ég með þá einföldu tillögu að best væri að breyta upprunalega textanum sem minnst og því legg ég til eftirfarandi fyrirsögn: "Venus hátt á himni skín".
Svo prjónaði ég við til að þetta yrði ekki vísnalaust:

Venus hátt á himni skín
hrikalega skært
sól hún eltir ennþá
svo undarlega vært.

Hátt á himni nú rís,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.

Nú er liðið annað ár
aldrei kemst hún nær.
Dátt samt dansinn stígur
dularfull og skær

Hátt á himin þá vill,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.

Í björtum dansi bíður enn
blikar djúp og skær.
Elífð lengi líður
hún lítið þokast nær.

Lágt á himni hún rís,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.


mbl.is Venus skært á himni skín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingin er hafin.

Fram mín þjóð sem flær og lýsnar sugu
þær feitar allsnarlega kroppum af.
Fari þau sem framhjá kerfi smugu
og fari kerfið sem í doða svaf.
Burt með þau sem blákallt að oss lugu
og burtu þið sem siglduð oss í kaf.

Sjá t.d:

„Annað lýðveldið Ísland“ óhjákvæmileg nauðsyn,
Nýtt sjálfseyðandi lýðræðisbreytingaafl,
Nýtt lýðveldi.,
Jón "forseta" aftur! Nú eða aldrei! ,
Viðreisn Alþingis - nýtt lýðveldi!

Einnig: Ó, þjóð mín þjóð


Línustuldur

Stundum les maður óvart texta og hann verður að vísu. Hér eru tvö dæmi.

Gamlárskvöld
Fyrstu línuna stal ég af Fíu sem er á Leirnum - sem er kvæðapóstlisti.

"Á gamlárskvöld sat ég að sumbli, eins og gengur"
saddur að vanda um áramót, sælt var geðið.
Nýtt ár það vekur oft vonir, þykir fengur
ég vakna brátt drauminum góða af, byrjar streðið.

Steingrímsfjörður
Seinni vísan varð til þegar ég var að lesa heimasíðu Jóns á Hrófbergi, en þar stal ég fyrstu línunni af Birnu Björnsdóttur.

"Mikið er allt með bláum blæ"
í blíðu við Steingrímsfjörðinn.
Fuglarnir lóna lygnan sæ
og ljósblá er himnagjörðin.


Brúðkaupslag

Svava frænka bað mig um að semja um vinkonu sína (og fyrrverandi skólafélaga minn) hana Lindu, texta sem hægt væri að syngja í brúðkaupinu hennar. Hér er það, en það má syngja við lag Sálarinnar, Neistann. Þess ber að geta að Gunnhildur konan mín hjálpaði mér mikið með þetta, bæði með textann og söng fyrir mig lagið.

Brúðkaupslag fyrir Lindu og Kristinn
 
Linda, syndandi’um systrahaf
í útlöndum gekk um grund
loks gekk inn í Reykjalund
Kristinn, kurrandi miðjubarn
veiðistöngin við vinstri hönd
veikur nam hann þar lönd
hjörtun upp á rönd
 

Oooh
 

Neista, þau fundu neista
lokin var þá læknavakt
og Linda í hjúkkudragt. ooh
Neista þau fundu neista
hann var sætur í sjúkraslopp
og með sjúklega flottan kropp. ooh

Kristinn, veiddi þar vel í sitt bú
vængjum þöndum þau svífa nú
og nú eru þau orðin þrjú.
Linda, beit fast í beituna hans
og nú brúðhjónin stíga dans
nú er glaumur og glans
gestir falla’í trans
 

Oooh

Neista, þau finna neista
saman gengu kirkjugólf
og nú fylla þau hjartahólf. ooh
Neista, þau finna neista
og nú eru orðin hjón
og aðrir biðlar eins og flón. ooh
 

Höfum á þann hátt
að lyfta glösum hátt
og kalla hátt
brúðhjónanna skál, SKÁL.

Neista, þau finna neista
saman gengu kirkjugólf
og fylla hjartahólf. ooh
Neista, þau finna neista
og nú eru orðin hjón
og aðrir biðlar eins og flón. ooh

Neista, þau finna neista
saman gengu kirkjugólf
og fylla sitt hjartahólf. ooh
Oh, neista

Ooooh

Nýtt ár

Nýtt er ár sem hér er hafið
hafið bylgjast margt fær grafið
grafið niður vinstri veður
veðurhorfur nokkra gleður


« Fyrri síða

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

243 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband