Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bálkar

Limruhnoð

Eitt sinn var Anna frá Tungu
ólétt með þéttvaxna bungu
eftir hann Þór
þann ofvaxna jór
og þursinn hátt þandi þá lungu.

Þau kynntust á köntríaballi
er káfaði á henni Halli
í slagsmál þá fór
sláninn hann Þór
og vinur hans snaróði Valli.

En fætíngur fer oft í pínu
og fætur þeir trömpuðu'á Stínu
þeir gáfu'henni drykk
og daman varð kvikk
þau dönsuðu öll svo í línu.

Í línudans asnaðist Anna
og ástfangin varð strax af glanna
þann þráðbeina Þór
en þursinn var sljór
og talaði skakkt milli tanna. 

En örlögin ekki'að því spyrja
hvort amorinn vill parið smyrja
þurrt var hans brauð
og bragð eins frauð
en Anna var mjúk eins og myrja.

Saman þau urðu að einu
og enn er það varla á hreinu
afhverju loks
urðu eitt box
og í flækju að fallegri kleinu.


Náttúrustemmur að vori.

Syngja'á heiði svanir tveir
og sinna hreiðurgerðum.
Sverja eiðinn synir þeir
og svífa breiðum herðum.

Áttlaust vindur yfir tind
æðir blindur núna.
Stendur hyrnd, slöpp, hölt og grind
- horuð kind við brúna

Lambaspörðin látúnsbrúnu
lita sinugrund.
Kind í hjörðu kroppar túnu
kát við vinafund.

Upptaka af fundinum!

Geir: 

"Elskan mín blessaður Óli,
eldsnemma var ég á róli
þú viðrar nú þvott
því veðrið er gott
í vinnu ég hökti á hjóli".

Ólafur: 

"Blessaður gestur minn Geir
nú gömnumst við nokkuð hér tveir
kaffi? tak sæti
sykur í bæti
útiveru enginn af deyr".

Geir: 

"Má ég fá einn annan mola?
og meðlætið niður svo skola?
á balli í gær
var glæsileg ær
góðbrjósta kallar mig fola".

Ólafur:

"Framhjáhalds þykir mér fnykur
í forgrunni allnokkrar blikur
fúll virðist Jón
framsóknarljón
fáðu þér köku og sykur".

Geir:

"En samfóa gellan er sæt
sjúkleg ó hvernig ég læt
hey, varstu'að baka
hrein snilld er kaka
hjónabandssælan er æt."

Ólafur:

"Takk fyrir, taumlaust ég syng
þú taka mátt bráðum fram þing
ég umboð þér gef
og allbetur sef
ef á fingri ei hefur hún hring."


Hófsemi

Kaloríu á engan kvóta
þó kannski það yrði til bóta
að éta'ekki neitt
og naga burt feitt
þá lífslöngun leið mun burt þjóta.

Því játa mun ég nokkuð glaður
að éta er skárra en blaður
því drekk ég og ét
sem ég djöfulsins get
hófsemi'er helvítis þvaður.


Nokkur kvæði

Veit ekki hvort fólk er búið að fá leið á þessu en sumum finnst þetta líklega litlaust og leiðinlegt en hér eru nokkur kvæði:

Ein samhenda (þær eru oft hljómfagrar):

Hestamaður varla verð,
vísu yrki þó um ferð,
á ljóðatruntu sveifla sverð
sveitt oft þykir kvæðagerð.

Smá landlýsing:

Flæmið sinufölgult - ó þú fagra slétta
nokkrar kindur mun það metta
ef mykjudreif mun á það sletta.

Flíka vil ég fegurð lífs á fróni gráu,
falleg eru fjöllin bláu,
í fjarska rísa tindum háu.

Hlíðin græna grasið væna, grund og læna,
krafsar hæna korn vill spæna
kýrnar mæna'á foss og spræna.

Spræna lækjar springur fram úr spildu svarðar,
læðist eftir lænu jarðar
liðast niður'að ósi fjarðar.

Vor í nánd og kosningar framundan:

Hringur þrengist húmi að
hér nú lengist dagur
vetur hengir haus við það
hriktir, engist, magur.

Hrafninn krúnkar, hreiður býr
í hlíðum dala
Á þingi eins og þrumugnýr,
þingmenn gala.

Vikhenda

Vikhendur eru skemmtilegar, svona líta þær út:

Ljóðið nokkuð listrænt hérna bjóða.
Vikhendunnar kvæðakjöt
kannski mun ég sjóða.

Fenginn sauð og saltaði með rími
Innrím bauð og gerði graut
nú glóir rauður sími.

Flensa

Svona sé ég flensuna fyrir mér sem ég hef verið með síðustu daga (svolítið ýkt).

Fékk ég verstan flensugest
fúlt var pestarskorið.
Hausverk mestan, hóst og brest,
í hálsi festist slorið.

Þreklaus eftir þrautir kvefs í þoku reika,
kekkir slíms um kinnar leika
kolstíflað er nefið bleika.

Hafði ei undan horið kom í heljarstöflum,
þó stundum væri kyrrt með köflum,
kinnhor var í háum sköflum.

Nokkur kvæði

Um veðrið:

Dumbungur, nú dropar falla,
dökkt er yfir þessum bæ,
vetri fer þó víst að halla,
vorið kemur, þá ég hlæ.

Álandsvindar vekja þrótt,
víst þó tinda kæli,
löskuð þindin, löng var nótt
leggst í syndabæli

Síðla veturs, hríðarhret
hor mun tetur snýta
nokkur fet var fannamet
foldarsetið hvíta.

Limran er nokkuð skemmtilegt form:

Limran er alls ekki æt,
og aldrei mun kallast hér sæt,
en hana mun yrkja
og handa þér virkja
hugann og finnst nokkuð mæt.

Ég átti einn hundgamlan hund,
í hundrað ár átti með fund,
í kjalvötnum kröppum
krafsaði löppum
já skringilegt skriðhundasund

Bleikur himinn

Himinn baðar bleikum þey
og birtir sína meiningu.
Skapari ég skil þig ei,
skelltu' þér í litgreiningu.

Einföld lausn á litadýrð
ljóst ég hygg það svona:
Skruggan hún er skeggi rýrð,
skaparinn er kona!

Kuldaljóð.

Ef kaldir vindar blása birtist blautur dropi
seytlar hann úr augnaopi
eins og lítill hrognastropi.

Nú er úti napurt mjög og nístir Kári,
brytja má úr blautu hári,
bíta kinnar frost í tári. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

248 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 260
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 256
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband