Leita í fréttum mbl.is

Bílum fækkar

Frónbúinn farskjótann ann
í fjársvelti hagvöxtur brann
og afleiðing gerða
er að hér verða
aðeins einn komma einn bíll á mann 


Hófsemi

Kaloríu á engan kvóta
þó kannski það yrði til bóta
að éta'ekki neitt
og naga burt feitt
þá lífslöngun leið mun burt þjóta.

Því játa mun ég nokkuð glaður
að éta er skárra en blaður
því drekk ég og ét
sem ég djöfulsins get
hófsemi'er helvítis þvaður.


Fjármálanautið

Hagstjórnun hérna er erfið
því hreyfanlegt þykir hagkerfið
nú fegrast þó skraut
því fjármálanaut
er komið í kosningagerfið.


Afdráttarháttur

Hér var ég að reyna við afdráttarhátt, en hann er þannig að fyrsti stafur allra orða í fyrriparti er tekinn í burtu til að mynda botninn. Það er frekar erfitt og tókst mér ekki vel til, allavega er þetta óskiljanleg vísa :)

Skærann hæðinn skynja mátt
skulda norpinn fjarðar
kærann æðinn kynja átt
kulda orpinn jarðar

Nefndir

Oft getum bætt hérna efndir.
Eru'ekki flestir vel stefndir?
Örörkumat
eflum hér tak,
og nefndardrög setjum í nefndir.


Umfjöllun

Fjöllum nú umfjöllun um
um umfjöllun og klæðaskrum
þesskonar fréttir
eru þvílíkur léttir
og nýstárlegt nýjasta brum.


Ljóðaþvaga

Ljóðaþvaga er nokkuð ný af nálinni. Sérstaða þessa háttar er í því fólgin að engu skiptir hvort ljóðin eru lesin ofan frá og niður eða hver lína frá vinstri til hægri. Hér er ein tilraun frá mér.

Syngur lóan lagvisst kvæði
lóan flautar, krílið magurt
lagvisst krílið kastar æði,
kvæði magurt, æði fagurt.

Morgunstund

Mér datt í hug þegar ég vaknaði eldsnemma einn morguninn.

Vanmetin er vökustund,
mig vekur dagsins blíða.
Seinna fæ mér soldinn blund,
svefninn hann má bíða.

Svo er hér ein morgunstemmning ótengt því að vakna snemma.

Daggir morguns drjúpa vel af fjólu.
Fölgræn grös með fögur tár
fagna komu sólu.

Bleyjuskipti

Skipt á bleyjum sonanna.

Efalaust vaknar brátt vissa,
verð ég þó alltaf jafn hissa
ef tek brók og treyju
og tóma sé bleyju þá
frjálslega félagar pissa.

Nokkur kvæði

Veit ekki hvort fólk er búið að fá leið á þessu en sumum finnst þetta líklega litlaust og leiðinlegt en hér eru nokkur kvæði:

Ein samhenda (þær eru oft hljómfagrar):

Hestamaður varla verð,
vísu yrki þó um ferð,
á ljóðatruntu sveifla sverð
sveitt oft þykir kvæðagerð.

Smá landlýsing:

Flæmið sinufölgult - ó þú fagra slétta
nokkrar kindur mun það metta
ef mykjudreif mun á það sletta.

Flíka vil ég fegurð lífs á fróni gráu,
falleg eru fjöllin bláu,
í fjarska rísa tindum háu.

Hlíðin græna grasið væna, grund og læna,
krafsar hæna korn vill spæna
kýrnar mæna'á foss og spræna.

Spræna lækjar springur fram úr spildu svarðar,
læðist eftir lænu jarðar
liðast niður'að ósi fjarðar.

Vor í nánd og kosningar framundan:

Hringur þrengist húmi að
hér nú lengist dagur
vetur hengir haus við það
hriktir, engist, magur.

Hrafninn krúnkar, hreiður býr
í hlíðum dala
Á þingi eins og þrumugnýr,
þingmenn gala.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

98 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband