Leita í fréttum mbl.is

Síðustu stökur ársins 2024

 
Vetrarsólstöður
 
Skammur dimmur dagur
drómi freraljómi
úti morkið myrkur
mæða kulnun glæða.
Senn mun roða röðull
rísa upp og lýsa
sól við grundu gæla
græða land og fæða.
 

Jólin

Eftir síðasta áratug
allflestar þökkum stundir.
Við sendum því kveðjur af hálfum hug
hátíðlegar um grundir.
 

Nokkrar vísur

Bassi, hundur í pössun

Heitir Bassi hundur minn
hænurassa bítur
pappa kjassar pardusinn
prumpar, massa hrýtur.
 
 
Fyrir hagyrðingamót og sviðaveislu:
 
Bráðum ætla að belgja kvið
berja saman kvæði
mun þar éta á sviði svið
og sífellt týna þræði.
 
Nokkrar úr samhengi:
 
Gegnum móðu glampar sól
gul og rauð og fagurbleik,
Fráneyg og í klaka kjól
Kælan mikla veður reyk
 
-
 
Njörvaður sem nár er foss
í nöprum klakaböndum,
tjóðrar flúðir kaldur koss,
kraftur þvarr á gröndum.
 
-
 
Áin seitlar létt og lágt
linast allur kraftur,
en þegar sólin svífur hátt
syngur fossinn aftur.
 
Níundi des:
 
Allsengin truflun og ekkert var ves
indæll var dagur það telst nokkuð spes
mjúkur og góður sem majóanes
í minningu bestur var níundi des.

Af hagyrðingamóti Brautartungu nóvember

Hagyrðingamót eru þannig að oft eru umfjöllunarefni þannig að fáir fatta nema heimamenn, en kannski eru einhver efni þarna sem gaman er að lesa fyrir aðra. Ég flutti ekki allar þessar vísur, en orti þessar í tilefni þessa hagyrðingamóts:

  1. Alþingiskosningar

Að kjósa þykir ljúft og létt
og langflest styðja gögn
að allir kjósa alltaf rétt
að eigin sögn.

Borða sumir hakkið hrátt
hægar stíga í austur (sokkinn)
en gellur munu gráta hátt
gangir þú í klaustur (flokkinn)

  1. Flokkaskiptagluggi frambjóðenda

Ef þú ert tittur og trítill
tómur sem hungraður mýtill
úr fallsæti farð
úr flokknum sem varð
á alþingi aðeins of lítill.

  1. Væntingar til talningar atkvæða í NV

Varla hef ég væntingar
verður ennþá þvaga
tel ég víst að talningar
telji marga daga.

Þegar flæði fagra miða
fletta menn og telja
gæti vestan komið kviða
og kastað milli élja

Flokkið sífellt seðlahólf
síðan teljið atkvæðin:
fjögur, átta, tíu, tólf
töfrandi er stærðfræðin.

  1. Yrkja um hina hagyrðingana

Jón Jens

Einn er maður aldrei lens
yrkir vísur gott er skens
býr til stuðlað bragarglens
bestur er hann Nonni Jens.

Gunnar Straumland

Gunnars Straumlands stuðlaspjöld
stöðugt dáist að,
um hann myndi yrkja í kvöld
ef ég mætti það

  1. Yrkja um stjórnandann, Önnu Lísu

Ef ég bara yrkja gæti,
Anna Lísa.
þá myndi fljótt með kraft og kæti
koma vísa.

  1. Yrkja um sjálfan sig, kynna sig

Höski Búi heiti ég
hellist í mig glundur
Með gröfu stundum geng minn veg
og gref í sundur

Höski Búi heiti ég
hagyrðinga-undur
grjót ég finn og geri veg
sem grefst svo fljótt í sundur.

Ég er þægur, þögult grey
þokkalegur fengur
hógvær eins og hofsóley
hlýr og sætur drengur.

  1. Þegar Óli á Hóli, formaður Dagrenningar boðaði til almenns félagsfundar en gleymdi að mæta sjálfur

Fjölmennur var eitt sinn fundur
furðu það vakti og undur
að heima á Hóli
var hlægjandi Óli
dágóður við eitthvað dundur

  1. Tilraunamastur vegna vindmylluáætlana á Grjóthálsi

Berst oft loft sem  belgir sig í Borgarfirði
ef þar myllur fylla firði
fjölmargt yrði lítils virði.

eða

Einhvers staðar verða‘að vera
vindmyllurnar ljótu
kannski fram af kletti skvera
og kasta oní gjótu.

  1. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum

Í fyrra skiptið sem Trump var forseti, þá fannst mér alltaf rétt að ríma svona:

Þó smjúgi oft ræpa um rump
og rjúki upp fnykur og prump
það allvel má þola
en úr eyrum ég skola
ef orðin ég heyri frá Trump.

Núna ríma ég alltaf við Trömp, sem er töluvert erfiðaðara:

Inn á sviðið æddi Trömp
allir á hann störðu,
því hátt heyrðist skvett og skvömp
og skarkali á jörðu.

  1. Forsetakosningarnar á Íslandi

Það kjósa allir sig eða sína
sanngjarna og jafnvel fína
en ógilt og snautt
var mitt atkvæði og dautt
því ég valdi víst Vigdísi mína

eða

Ég fann þau við fjöru og voga
framboð sem vildu í  toga
en ógilt og snautt
var mitt atkvæði og dautt
það endaði á Vigggu Finnboga.

  1. Dagur íslenskrar tungu, 16. nóv.

Pass

  1. Tillögur að nútímavæðingu sviðaáts

Matseðillinn í næstu sviðaveislu

Í forrétt sviðatungutakó
tex mex salsakinnar
úr soði fáum sviðakakó
sætu krúsarinnar.

Svo er rófu tófú-te
og tungubrodds risotto
en sviðakjamma creme brulee
er kannski of mikið lottó.

  1. Fyrsti fjósarobotinn í dalnum kemur í Lund, gerfigreind/vitlíki

pass

 

  1. Dýralæknar svæðisins virðast hafa tekið við hlutverki heilsugæslulækna, sauma sár o.s.frv.

Læknað hefur svöðusár
saumað nokkra bóga
lengt hann hefur æviár
engum þurft að lóga

Brotthvarfs Dagbjarts og Dísu frá Hrísum

Ekki var þar okur klúrt
eða rándýrt verðlag
í kaupauka fékkst kæst og súrt
kvæðamannafélag

Fatnaður stjórnmálamanna og verðmæti á  honum í fjölmiðlum

Í fjölmiðlum er flest til ama
fann þó góðan dóm.
að hátt þú nærð í frægð og frama
í fögrum gúmmískóm.

Rannsókn Landbúnaðarháskólans á losun framræstra mýra á hláturgas

"Nú er hlátur nývakinn“
nú er lögg í pelum
mýrargas við munn og kinn
mælt í decibelum.

 

 

 


Nokkrar vísur að hausti

25 október

Sár er ég aðeins og svekktur,
súr og ögn fýldur og trekktur,
því rímorð við sjö,
ég sé aðeins tvö
og geng því um gramur og hvekktur.
 
16 október
 
Vænar eru veitingar,
vísur, ljóð og bögur.
Milli berast meiningar,
margar góðar sögur.
 
Kennarar í kasti'og bræði
kunna fátt né nenna.
Mæta illa, forðast fræði
í fríum sig mest glenna.
 
13 október
 
"Í logni og stillu langbest er að leysa vind“,
súr á bragði sagði kind.
 
4. október
 
Þegar vatnið gerlar grugga
glundrið þarf að sjóða
er þá langbest öl að brugga
og upp á það svo bjóða
 
26 september
 
Kuldinn datt á helst til hratt
og hrímir svörð.
Fögur laufin, föl og dauf
falla'á jörð.
 
28 ágúst
 
Horfum fram til framtíðar
furðumargt má laga
því það er af sem áður var
eins og forðum daga.

Sunndals-Helga

Myrkur og skuggi, martröðin þvöl
máttlausa hálsana kreisti
skynjunin eilífa kuldi og kvöl
kafnar hlýja og neisti.
Ráfa grýttar götur bakið í keng
gráan hef og slitinn tilverustreng
sumir minningu sverta
nauðbeygð og köld úr gröfinni geng
gott var að finna og snerta.

Sólin og hlýja er minningin mjúk
man eftir lyngi í blóma
léttstígar kóngulær kitluðu búk
kólnuð minning í dróma.
Slóðin horfin skefur fönnin í skafl
skríð ég móti stormi en vonlaust er tafl
náföl við Nónskarð mun dvelja
limir þar frusu lamað mitt afl
legginn ættar mun kvelja.

Hrútur og gimbur hlupu burt tvö
húsbóndans belti það stingur
kaldlynd ég geng því með kynslóðum sjö
kolsvart hjartað mitt springur.
Svefns og vöku milli mara þú skalt
mun ég taka frá þér vonina og allt
látlaust og týnt er mitt leiði
húmið tóma mig kallar á kalt
kraumar ólgandi reiði.


Grænlandsvísur

Grænlandsvísa nr. 1

Kitla hreindýr, kyssa birni,
kaldan stíga jaka,
vaða læki, væta girni
viskí drekk í klaka.
 
Grænlandsvísa nr. 2
 
Sést í Eiríksfirði fríð
fríðleiksmikla Brattahlíð
hlíð sem ein af bæjum ber,
berangur er lítill hér.
 
Grænlandsvísa nr. 3
 
Þeir láta sig vasklega vaða
um voga, en engum til skaða,
milli jaka og þara,
þræða og fara
á 35 mílna hraða.
 
Grænlandsvísa nr. 4
 
Í Leiruvogarlækjunum
leika má við bleika fiska.
Með kúnst og veiðiklækjunum
keikir setja steik á diska.
 
Grænlandsvísa nr. 5
 
Svangir eru synirnir
svíkja veiðikveikjur.
Í viðbót þurfa vinirnir
vænar sautján bleikjur.
 
Grænlandsvísa nr. 6
 
Heitir Snati hundur minn,
hreindýrsmatinn dáir,
hvergi latur höfðinginn,
um holt og flatir gáir.
 
Grænlandsvísa nr. 7
 
Nú er gjólan grimm en hlý,
Grænlands skjólið klárast,
þúsund sólir, silfurský,
sær við bólið gárast.
 
Grænlandsvísa nr. 8 og 9
 
Brosir Magnús, bogin stöng
bláan lækinn klappar.
Vænar flugur, veisluföng
vilja bleikir kappar.
 
Bergsveinn er með brotna stöng,
bleikjur allar svíkja,
vænar lirfur, veisluföng,
varla á þær kíkja.
 
Grænlandsvísa nr. 10
 
Hvenær loks ég hvíli beinin,
hverfa mun ég undir skafl.
Þá mátt láta stóra steininn
standa mér við höfuðgafl.
 
Grænlandsvísa nr 11
 
Mikill finnst mér Grænlands galdur,
göfug er hér sólskríkja,
en enginn stelkur, enginn tjaldur,
engin mófugl að kíkja.
 
Grænlandsvísa nr. 12
 
Þegar kemur kvöldið svart
kíkir inn um glugga
selalýsið brennir bjart
burtu alla skugga.
 
Grænlandsvísa nr. 13
 
Armæðan er alltaf best
upp við steininn rétta.
Tvisvar gleðst víst sá er sest
á svarta gabbrókletta.
 
Grænlandsvísa nr. 14
 
Kröpp hér þykja Kaldbakshorn
kúra þau einsömul,
mjög á okkur mæna forn
milljón ára gömul
 
Grænlandsvísa nr. 15
 
Á Stuðlabergi stendur jörð
Stefáns milli handa.
Þarna sáum hreindýrshjörð
hlaupa yfir sanda.
 
Grænlandsvísa nr. 16
 
Veiðiþjófur á vergangi
vitlaus land um smeygir.
Bukki upp á berggangi
breiðu horn sín teygir.
 
Grænlandsvísa nr. 17 og 18
 
Vinir hlógu, vindur rauk
voru mál að ræða.
Í hendingskasti húfan fauk
í hafið blauta skæða.
 
Söltuð húfan hangir nú
sem harðfiskur og rengi.
Bráðum hefur húfan sú
hangið nógu lengi.
 
 
Grænlandsvísur nr. 19 - 21
 
Brullaup vorum boðnir í
brúðkaup margra nátta
flottheit mjög og fyllerí
1408.
 
Sauðnautsskankar, lambalund,
léttsúrsaður selur.
Vildum mjög á vinafund,
vonir margur elur.
 
Kirkjugólfið granítsteinn,
gruggugt öl við barinn,
en hópurinn var helst til seinn
og hersingin öll farin.
 
 
Grænlandsvísa nr. 22
 
Í Narsaq er eitt sem getur glatt
glampar sem jökulbláminn.
Nokkrar tommur tæmdust hratt
við tuttugu feta gáminn.

Ytra Tungugil

Gilið langa göngum,
gleði fylgir streði,
stökkvum upp að Stekki,
stöndum þar og öndum,
köttur skríður kletta,
krákur hleypur strákur,
götur grónar fetum,
gellur spóinn hvellinn.

Háttatal júní-júlí 2024

Um mánaðarskeið, frá 28 júní - 20 júlí 2024, orti ég slatta af vísum við ýmis tilefni og flokkaði jafnóðum niður í bragarhætti. Hér er afraksturinn og ekki í neinni tímaröð, en í háttatalsröð.

 

Ferskeytt  

  1. Ferskeytt

Froða 

Golan hlýja hitar loft

hála brautin tælir.

Í góðu stuði ansi oft

ísköld froðan kælir.

 

  1. Frumframhent, Hálfhent

Sumarnótt 

Dagur fagur dregur tjöld,

dökknar himinblámi.

Þótt að nóttin komi köld,

kemur enginn grámi.

 

  1. Frumsamframhent

Mýrarsundin 

Ýfir, hrífur, hreyfist rótt 

heitur blær við lundinn.

Svífa fífuhárin hljótt 

hægt um mýrarsundin.

 

  1. Framhent

Veðurhamur 

Vargast, garga vekja ugg

vindar, tinda berja.

Kvistir hristast, gárast grugg

gjárnar, árnar merja.

 

  1. Skáhent

Kónguló

Kónguló frá Karþagó 

kúrir mjög og dreymir.

Agnarsmá með eftirsjá 

engu þaðan gleymir.


Hverfell/Hverfjall

Æðir kjellinn upp á fell 

ört mun kraftur þverra.

Næst fer kallinn niður fjall

nú er bakið verra.

 

Draghent

 

  1. Draghent

Maríuerlan 

Flugurnar um fötin smjúga

flest á borðum spilla.

Maríuerlan má inn fljúga 

maga sinn þar fylla.

 

  1. Draghend sléttubönd

Svikasumar 

Klaga munum, varla víkur

vakna, glitrar sjórinn.

Daga langa sumar svíkur,

sjaldan drekkum bjórinn.

 

Vakna víkur 

Bjórinn drekkum, sjaldan svíkur,

sumar langa daga.

Sjórinn glitar, vakna víkur,

varla munum klaga.

 

  1. Draghend sléttubönd, víxlhend

Ölið meiðir 

Ölið meiðir, hvergi kverkar 

kitlar, glundur vætir.

Bölið eyðir, vitlaust verkar,

varla undur bætir.

 

Kitlar kverkar

Bætir undur, varla verkar 

vitlaust, eyðir bölið.

Vætir glundur, kitlar kverkar, 

hvergi ölið meiðir.

 

Stefjahrun 

 

  1. Síðsniðframríma

Boltastjarnan

Boltastjarnan skein oft skært

skildi ekki tap.

Upp nú fuðrar angurvært

aldrað stjörnuhrap

 

Skammhent

 

  1. Fráhent

Flakka lömb

Flakka lömb á fjallakömbum,

fíngerð naga strá.

Urðir smeygja upp sig teygja,

orðin köld og grá.

 

Gagaraljóð

 

  1. Hringhent

Bölvað hnoð 

Þetta er bull og bölvað hnoð

bundið sull sem rímar vel.

Fjarri gulli, frekar moð,

fast á drullu að ég tel.

 

  1. Síðstiklað

Í Hörgárdal 

Í Fornhaganum finna má 

fjallasal og lækjarhjal,

blómin fögur fjólublá,

fuglamal í Hörgárdal.

 

Nýhent

 

  1. Frumbaksneitt, síðframsneitt

Sniglar 

Sniglar fóru að leita að laut

latir, feitir vildu kúra,

ei má vera of vot og blaut

vex þar ax og hundasúra.

 

Stafhent

 

  1. Mishent

Félagsvist 

Ennþá Biden berst við Trump,

berast lætin heim til Gump,

þeir fíla twist og faðmhlýju,

félagsvist og bocciu.

 

  1. Klifað

Bryggjuhátíð 

Á Bryggjuhátíð fólkið fer

ferlega það geggjað er

erfitt samt er stanslaust stuð 

stuðning þarft við gleði puð.

 

Samhent 

 

  1. Áttstiklað

Áttþættingur

Sveinbjörn aldarafmæli 

Hert og þjált er stuðlastál,

sterkt er mál sem kveikir bál, 

þín var sál oss segulnál,

Sveinbjörn Váli - þína skál.

 

Stikluvik

 

  1. Hringhent

Heilræði

Langtum best það löngum tel,

láta bresti vera,

sinna gestum sæll og vel

sýna flestum vinarþel.

 

  1. Vikframhent

Kenderí 

Kallinn fer á kenderí,

kalt og svalt er ölið.

Svona er mitt sumarfrí 

svall og eilíft fyllerí.

 

Valhent 

 

  1. Frárímað

Fuglasöngur 

Nú er sumar, sólskin fuglar syngja um.

Þó að rigni dag og dag,

dásamlegt við heyrum lag.

 

Stuðlafall 

 

  1. Samrímað, frumframhent, bakhent, síðhent

Núvitundagönguferð 

Margir arga mjög er grjót um hnjóta,

þegar flækir fótur rót,

fýldir skrækja sótað blót.

 

 

Afhent 

 

  1. Framsneitt

Sól og ský 

Sólin felur sig á bakvið sægrátt skýið

Blómin sveima blásvart mýið.

 

  1. Sniðstímað

Fuglamergð

Fegurðin er fuglamergð um flóa og haga,

og flugusuð um sumardaga

 

Stúfhent 

 

  1. Fimmstiklað

Í Fnjóskadal 

Syngja, gala, hneggja, hjala, hátt er mal,

fuglatal í Fnjóskadal

 

  1. Sniðframrímað

Klósettskál 

Aldir líða eru móar ennþá hál

köld og rennblaut klósettskál

 


Forsetakosningar 1. júní 2024

Undir feldi

Veltir flóðið fúlum þara
flugur sitja'á taði,
undir feldi aðrir mara,
í úldnu svitabaði.

Kjósa rétt
 
Upp úr jörðu eldur gýs,
elsku vinir.
Einnig rétt ég eflaust kýs,
eins og hinir.
 
 
Kosningaríma
 
Við þurfum ei að þrasa grett
þrúgandi er klefi.
Í kosningum er kosið rétt
þú kýst með þínu nefi.
 
IceQueen kýs ég, Ásdísi Rán
inn á Bessastaði.
Hennar vart get verið án
vel ég því með hraði.
 
Steinunn best mun bæta allt
í Bessastaðasloti.
Hér er mitt mat, hreint og kalt
hún heldur þjóð á floti.
 
Viktor er mín vonardís
vekur Bessastaði.
Stend ég með og stöðugt kýs
sem stund í freyðibaði.
 
Eiríkur með ást og þrá
enn ég kýs og hneigi.
Um bárur siglir beint mót vá
á Bessastaðafleyi.
 
Arnar kýs, ég kalla hátt
"komdu á Bessastaði."
Reiða þjóð mun rétta sátt
og rjómasúkkulaði
 
Hratt ég kýs nú Höllu Tomm
til halla Bessastaða.
Stöðug er og sterk sem romm
stúlkan afslappaða.
 
Ástþór ég víst alltaf kýs
á hann Bessastaði.
Bardagana burtu vís
bægir frá með hraði.
 
Núna kýs ég Nonna Gnarr,
næst á Bessastaði.
Ef lekur ofn og ljótt er marr
það lagar drengur glaði.
 
Baldur kýs og bregst hann ei
Bessastaðagrundum.
Íslands brag og borg og ey
bætir öllum stundum.
 
Helst ég gæti Helgu keyrt
að höllum Bessastaða.
Ljúf er daman, líkt og meyrt
lambið heilgrillaða.
 
Kötu vel, ei bregðast bönd
í Bessastaðafjósi.
Jafnvíg er með hægri hönd
þó hjartað vinstri kjósi.
 
Snjall nú kýs ég Höllu Hrund
sem hrífur Bessastaði.
Hún vekur þjóð og léttir lund
í ljósum flísfatnaði.
 
Kosningalíffæri
 
Ég er ekki alveg viss með hvaða líffæri best er að kjósa...
 
Líffærin þau láta ei
lýðræðið í friði.
Hjartað það er grandlaust grey
og gleypir slæma siði.
 
Best er í gallblöðru allt
beiskt og súrt að gleyma.
Viltu kjósa villt en snjallt
visku húð mun teyma.
 
Í einlægni þú hreina halt
með heilakvörninni.
En atkvæði þú skrifa skalt
með skeifugörninni.
 
 
 
 

Nokkrar stökur

Enginn bóndi

Enginn bóndi, enginn matur
ei um sult mig kæri,
lúðu et og eftirmatur
ágætt hákarlslæri.
 
 
Ráðherrastóllinn
 
Landinn vill ei slef né slen
sleipur þykir hóllinn
hættu þessu Bjarni Ben
blár er ekki stóllinn!
 
Sumardaginn fyrsta
Kaldan vetur kveðjum sátt
hann kann sig enn að byrsta,
en sól og fuglar syngja hátt
Sumardaginn fyrsta.
 
Palestína
 
Bombur sundra börn og víf
beigur, hryllingspína.
Hatur eyðir lönd og líf
Lifi Palestína.

Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband