Leita í fréttum mbl.is

Sigurey frá Drangsnesi

Langt er síðan ég setti hérna inn vísnaþátt (þ.e. með vísum eftir aðra en sjálfan mig). Ég var á kvæðamannafundi í síðustu viku í Reykholti og þar renna vísur upp úr nokkrum snillingum og greip ég eina og mundi nokkurn vegin, en hún er eftir Sigurey frá Drangsnesi (Sigurey Guðrún Júlíusdóttir).

Þjóðviljinn:

Þarna kemur Þjóðviljinn
það er nú meiri snilldin
Geislar af honum góðviljinn
gáfurnar og mildin.

Ég fann síðan fleiri vísur á netinu eftir hana, en einnig eru vísur og ljóð í bókinni Kvæðaperlur úr Kaldrananeshreppi, meðal annars þessar:

Litið í spegil:

Yndislega unga kvinnu
ekki bjóst ég við að sjá,
en þessa herjans hrokkinskinnu
hryllir mig að líta á.

Þó ég hafi starfið stranga

Þó ég hafi starfið stranga
stundað eins og best ég gat
mega aldrei af mér ganga
áhyggjur um föt og mat. 

Hún var ekki hrifin af órímuðum ljóðum:

Flest er það sem fer úr höndum,
flest sem reynist tál.
Ef nú er komið í strand á Ströndum
stuðlabundið mál.

Drengur fór úr skónum út á tröppum:

Ertu svona ungi maður
illa með á nótunum.
Hér er ekki helgur staður
hafðu skóna á fótunum.

Til er ljóðabók með vísum og ljóðum hennar, sem ég ætla að skoða við tækifæri en ég veit af eintaki hjá móður minni.

Sigurey lést árið 1983 þegar ég var 10 ára, en ég kynntist henni samt ekki, en hún var flutt suður áður en ég man almennilega eftir mér en mögulega kom hún þó á Strandir yfir sumartíman þó ég muni það ekki. Maður heyrði þó oft nafn hennar og mannsins hennar (Sophus - Fúsi, en hann var náskyldur mér í gegnum móðurætt mína), en litla fallega húsið þeirra sem stendur enn fyrir ofan Búðina (Kaupfélagið) var oft notað til að fara í yfir, enda fullkomin stærð á húsi fyrir þann leik.

Hér er mynd frá árinu 1986 sem sýnir Fúsahúsið eins og við kölluðum það.

Image (5)

 

 

 


Háttatal febrúar 2025

Í febrúar 2025 tók ég mig til og orti vísur eftir háttatali Sveinbjörns Beinteinssonar*, hér er samantekt með árangrinum.

*Bragarhættir samkvæmt Sveinbirni eru 450 talsins. Daglega bað ég google um að búa til random tölu milli 1 og 450 og svo orti ég eftir þeirri uppskrift sem Sveinbjörn bauð upp á þann daginn. Afrit er til af háttatalinu hér.
 

Ferskeytt 

26 - Frumstiklað, síðhent

Kónguló frá Karþagó
kalt nú bugar hreisið
undir snjó hún bú sér bjó
bölvar fluguleysið.

Draghent

53 - Frumstiklað, síðbakhent

Illt er rokið allt er strokið
áman víða skríður
tunna fokin, tætt er lokið
tóm við síðu bíður.

Stefjahrun 

79 - Samrímað, frumstiklað, Krapphent

Þurr sem fjara, fúll sem mar
fann mig edrúar.
Fer því skar á Barabar
bjór mun drekka þar.

Skammhent

102 - Skáþríkveðið

Eftir gný og gráu skýin
greinum nýjan dag.
Himinnblá mun æða áin
allt kemst þá í lag.

103 - Frumstiklað.  Þessar þrjár vísur áttu upphaflega að verða síðframrímaðar (sjá 109), en það gekk illa og úr varð að háttur 103 fékk óvænt þrjár vísur.

Rökin ört svo hrein frá hjörtum
heilla skýr og kná,
en ljósin björt ef blönduð svörtum
birtast fjarskagrá.

Dökkt er grjót sem drafnir móta
drita fuglar á.
Fjöllin ljót sem fætur brjóta
úr fjarska glæst og blá.

Ef fólk er sest og fullt af gestum
með feikna matarlyst.
Það sem best þá þykir flestum
þrýtur oftast fyrst.

109 -Frumstiklað, síðframrímað

Vert ei gunga, gleyptu tungu
gasalegt er búr,
kaldir pungar koluð lungu
kasað allt í súr.

Úrkast

118- Frummisfjórþætt

Snjallir karlar kalla´og svall´á
Kaneríum
Amma djammar, gammar gjamm´í
galleríum.

127 - Innbrugðið

Að yrkja vísu veldur sjaldan
vondri krísu.
Drjúg ef rís upp dröfnótt aldan
dreg ég ýsu. 

Gagaraljóð, engin staka að þessu sinni.

Langhent

195 - Frumbakhent

Kafald skörpu skilin hylur
skaflar virðast eilíft kvabb
samt á morgun mylur ylur
mjöllina svo verður slabb.

Nýhent

211 - Frumframsneitt, síðframhent

Þó að ei sé kalsa kalt,
korrar Þorri gamalkunnur,
hvæsa blása hviður snjallt,
hundrað sundrast ruslatunnur.

212 - Frumbaksneitt, síðframsneitt

Hríðin öskrar hert og svört
hlær við skeri, köld er Góa.
Vorsól kemur, birtist björt
bráðum hljóðar vell í spóa.

Breiðhent, engin staka að þessu sinni.

Stafhent

252 - Skárímað

Eftir hríðir heyrist fagn
hávært lækkar bölv og ragn
lægi vindur agnar ögn
aftur kemur fislétt þögn.

Samhent, engin staka að þessu sinni.

Stikluvik, engin staka að þessu sinni.

Valstýft

Frumsamframsneitt. Þessar tvær urðu til fyrir misskilning og eiga sér ekki númer - en auðvelt er að finna út að hér er frumsamframsneitt með samanburði við aðra hætti. Það skal tekið fram að innrímið vakna-hjakka er ekki ásættanlegt en ég leyfði því að slæda eins og sagt er í dag. 

Mætar fætur Dias dró
sem Dómínó.
Vitið skýtur skorar Moh
og skellihló.

Vakna, hjakka, Wolves við urð
sem vélin smurð.
Becker fékk á sköflung skurð
svo skall við hurð. 

303 - Frumsamframhent


Kvefið hefur komið snautt
og klipið autt,
því er nefið nokkuð blautt
og næstum rautt.

Braghent

331 - Samrímað, aukrímað. Hér gat ég ekki hætt og úr urðu nokkrar vísur.

Vorljóð 

Fuglar margir flögra um til fjörunytja
vaskir menn er vörur flytja
vansælir í tjöru sitja.

Út við nesið úar fagur æðarbliki
gnótt er hoss i gæðaspiki
af gljúpu klesstu mæðubiki.

Meðfram kaldri sjávarsíðu sullar kolla
fúlir menn með fulla bolla
fara hratt um drullupolla.

Fjaðrir þjóta fuglar busla flottir skvetta
poppið sullast pottlok detta
í pikkup milli þvottabretta.

Stokkendur í straumleysinu stama, hvíla
götur hratt menn gramir bíla
gorma mjúka saman kýla.

En með vori æðurinn þarf unga að hemja
þúsund trukkar þungir lemja
þröngar holur, punga kremja.

Valhent, engin staka að þessu sinni.

Stuðlafall, engin staka að þessu sinni.

 

Vikhent

401 - Hringhent

Óréttlæti alltof víða bítur.
Nartar, grætir, nagar fast,
niður tætir, brýtur.

Afhent 

429 - Frumhent, síðstiklað

Fögur rís í frosti vísan, funheit staka,
sem bræðir niður kaldan klaka.

430 - Fimmstiklað, Netthent

Vísan frá mun vaxa smá og vekja þráa
en hverfa frá í fnyki táa.

Stúfhent 

440 - Frumbakumsneitt

Hér um bil þá brasið endar byrja vand-
ræði, allt í bál og brand.


Nokkrar stökur frá í des 24 og jan 25

Sundhnjúkagígur

Pókerfés um eld og ís
er eilíf gríma.
Líklegt er og eflaust gýs
þar einhverntíma.
 
Snjókorn detta
 
Snjókorn detta hægt og hljótt
holur fela djúpar
þæfingskafald þolinmótt
þvottabrettin hjúpar.
 
Í Fornhaga
 
Í Fornhaga var hlegið hátt
hangiket í nartað
sopið ölið sungið dátt
saman styrkjum hjartað.
 
Landsmót kvæðamanna í Dalabyggð í vor
 
Dönsum senn í Dalabyggð
og drápur kveðum margar.
Oft ef kemur á oss styggð
okkur ríman bjargar.
 

Síðustu stökur ársins 2024

 
Vetrarsólstöður
 
Skammur dimmur dagur
drómi freraljómi
úti morkið myrkur
mæða kulnun glæða.
Senn mun roða röðull
rísa upp og lýsa
sól við grundu gæla
græða land og fæða.
 

Jólin

Eftir síðasta áratug
allflestar þökkum stundir.
Við sendum því kveðjur af hálfum hug
hátíðlegar um grundir.
 

Nokkrar vísur

Bassi, hundur í pössun

Heitir Bassi hundur minn
hænurassa bítur
pappa kjassar pardusinn
prumpar, massa hrýtur.
 
 
Fyrir hagyrðingamót og sviðaveislu:
 
Bráðum ætla að belgja kvið
berja saman kvæði
mun þar éta á sviði svið
og sífellt týna þræði.
 
Nokkrar úr samhengi:
 
Gegnum móðu glampar sól
gul og rauð og fagurbleik,
Fráneyg og í klaka kjól
Kælan mikla veður reyk
 
-
 
Njörvaður sem nár er foss
í nöprum klakaböndum,
tjóðrar flúðir kaldur koss,
kraftur þvarr á gröndum.
 
-
 
Áin seitlar létt og lágt
linast allur kraftur,
en þegar sólin svífur hátt
syngur fossinn aftur.
 
Níundi des:
 
Allsengin truflun og ekkert var ves
indæll var dagur það telst nokkuð spes
mjúkur og góður sem majóanes
í minningu bestur var níundi des.

Af hagyrðingamóti Brautartungu nóvember

Hagyrðingamót eru þannig að oft eru umfjöllunarefni þannig að fáir fatta nema heimamenn, en kannski eru einhver efni þarna sem gaman er að lesa fyrir aðra. Ég flutti ekki allar þessar vísur, en orti þessar í tilefni þessa hagyrðingamóts:

  1. Alþingiskosningar

Að kjósa þykir ljúft og létt
og langflest styðja gögn
að allir kjósa alltaf rétt
að eigin sögn.

Borða sumir hakkið hrátt
hægar stíga í austur (sokkinn)
en gellur munu gráta hátt
gangir þú í klaustur (flokkinn)

  1. Flokkaskiptagluggi frambjóðenda

Ef þú ert tittur og trítill
tómur sem hungraður mýtill
úr fallsæti farð
úr flokknum sem varð
á alþingi aðeins of lítill.

  1. Væntingar til talningar atkvæða í NV

Varla hef ég væntingar
verður ennþá þvaga
tel ég víst að talningar
telji marga daga.

Þegar flæði fagra miða
fletta menn og telja
gæti vestan komið kviða
og kastað milli élja

Flokkið sífellt seðlahólf
síðan teljið atkvæðin:
fjögur, átta, tíu, tólf
töfrandi er stærðfræðin.

  1. Yrkja um hina hagyrðingana

Jón Jens

Einn er maður aldrei lens
yrkir vísur gott er skens
býr til stuðlað bragarglens
bestur er hann Nonni Jens.

Gunnar Straumland

Gunnars Straumlands stuðlaspjöld
stöðugt dáist að,
um hann myndi yrkja í kvöld
ef ég mætti það

  1. Yrkja um stjórnandann, Önnu Lísu

Ef ég bara yrkja gæti,
Anna Lísa.
þá myndi fljótt með kraft og kæti
koma vísa.

  1. Yrkja um sjálfan sig, kynna sig

Höski Búi heiti ég
hellist í mig glundur
Með gröfu stundum geng minn veg
og gref í sundur

Höski Búi heiti ég
hagyrðinga-undur
grjót ég finn og geri veg
sem grefst svo fljótt í sundur.

Ég er þægur, þögult grey
þokkalegur fengur
hógvær eins og hofsóley
hlýr og sætur drengur.

  1. Þegar Óli á Hóli, formaður Dagrenningar boðaði til almenns félagsfundar en gleymdi að mæta sjálfur

Fjölmennur var eitt sinn fundur
furðu það vakti og undur
að heima á Hóli
var hlægjandi Óli
dágóður við eitthvað dundur

  1. Tilraunamastur vegna vindmylluáætlana á Grjóthálsi

Berst oft loft sem  belgir sig í Borgarfirði
ef þar myllur fylla firði
fjölmargt yrði lítils virði.

eða

Einhvers staðar verða‘að vera
vindmyllurnar ljótu
kannski fram af kletti skvera
og kasta oní gjótu.

  1. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum

Í fyrra skiptið sem Trump var forseti, þá fannst mér alltaf rétt að ríma svona:

Þó smjúgi oft ræpa um rump
og rjúki upp fnykur og prump
það allvel má þola
en úr eyrum ég skola
ef orðin ég heyri frá Trump.

Núna ríma ég alltaf við Trömp, sem er töluvert erfiðaðara:

Inn á sviðið æddi Trömp
allir á hann störðu,
því hátt heyrðist skvett og skvömp
og skarkali á jörðu.

  1. Forsetakosningarnar á Íslandi

Það kjósa allir sig eða sína
sanngjarna og jafnvel fína
en ógilt og snautt
var mitt atkvæði og dautt
því ég valdi víst Vigdísi mína

eða

Ég fann þau við fjöru og voga
framboð sem vildu í  toga
en ógilt og snautt
var mitt atkvæði og dautt
það endaði á Vigggu Finnboga.

  1. Dagur íslenskrar tungu, 16. nóv.

Pass

  1. Tillögur að nútímavæðingu sviðaáts

Matseðillinn í næstu sviðaveislu

Í forrétt sviðatungutakó
tex mex salsakinnar
úr soði fáum sviðakakó
sætu krúsarinnar.

Svo er rófu tófú-te
og tungubrodds risotto
en sviðakjamma creme brulee
er kannski of mikið lottó.

  1. Fyrsti fjósarobotinn í dalnum kemur í Lund, gerfigreind/vitlíki

pass

 

  1. Dýralæknar svæðisins virðast hafa tekið við hlutverki heilsugæslulækna, sauma sár o.s.frv.

Læknað hefur svöðusár
saumað nokkra bóga
lengt hann hefur æviár
engum þurft að lóga

Brotthvarfs Dagbjarts og Dísu frá Hrísum

Ekki var þar okur klúrt
eða rándýrt verðlag
í kaupauka fékkst kæst og súrt
kvæðamannafélag

Fatnaður stjórnmálamanna og verðmæti á  honum í fjölmiðlum

Í fjölmiðlum er flest til ama
fann þó góðan dóm.
að hátt þú nærð í frægð og frama
í fögrum gúmmískóm.

Rannsókn Landbúnaðarháskólans á losun framræstra mýra á hláturgas

"Nú er hlátur nývakinn“
nú er lögg í pelum
mýrargas við munn og kinn
mælt í decibelum.

 

 

 


Nokkrar vísur að hausti

25 október

Sár er ég aðeins og svekktur,
súr og ögn fýldur og trekktur,
því rímorð við sjö,
ég sé aðeins tvö
og geng því um gramur og hvekktur.
 
16 október
 
Vænar eru veitingar,
vísur, ljóð og bögur.
Milli berast meiningar,
margar góðar sögur.
 
Kennarar í kasti'og bræði
kunna fátt né nenna.
Mæta illa, forðast fræði
í fríum sig mest glenna.
 
13 október
 
"Í logni og stillu langbest er að leysa vind“,
súr á bragði sagði kind.
 
4. október
 
Þegar vatnið gerlar grugga
glundrið þarf að sjóða
er þá langbest öl að brugga
og upp á það svo bjóða
 
26 september
 
Kuldinn datt á helst til hratt
og hrímir svörð.
Fögur laufin, föl og dauf
falla'á jörð.
 
28 ágúst
 
Horfum fram til framtíðar
furðumargt má laga
því það er af sem áður var
eins og forðum daga.

Sunndals-Helga

Myrkur og skuggi, martröðin þvöl
máttlausa hálsana kreisti
skynjunin eilífa kuldi og kvöl
kafnar hlýja og neisti.
Ráfa grýttar götur bakið í keng
gráan hef og slitinn tilverustreng
sumir minningu sverta
nauðbeygð og köld úr gröfinni geng
gott var að finna og snerta.

Sólin og hlýja er minningin mjúk
man eftir lyngi í blóma
léttstígar kóngulær kitluðu búk
kólnuð minning í dróma.
Slóðin horfin skefur fönnin í skafl
skríð ég móti stormi en vonlaust er tafl
náföl við Nónskarð mun dvelja
limir þar frusu lamað mitt afl
legginn ættar mun kvelja.

Hrútur og gimbur hlupu burt tvö
húsbóndans belti það stingur
kaldlynd ég geng því með kynslóðum sjö
kolsvart hjartað mitt springur.
Svefns og vöku milli mara þú skalt
mun ég taka frá þér vonina og allt
látlaust og týnt er mitt leiði
húmið tóma mig kallar á kalt
kraumar ólgandi reiði.


Grænlandsvísur

Grænlandsvísa nr. 1

Kitla hreindýr, kyssa birni,
kaldan stíga jaka,
vaða læki, væta girni
viskí drekk í klaka.
 
Grænlandsvísa nr. 2
 
Sést í Eiríksfirði fríð
fríðleiksmikla Brattahlíð
hlíð sem ein af bæjum ber,
berangur er lítill hér.
 
Grænlandsvísa nr. 3
 
Þeir láta sig vasklega vaða
um voga, en engum til skaða,
milli jaka og þara,
þræða og fara
á 35 mílna hraða.
 
Grænlandsvísa nr. 4
 
Í Leiruvogarlækjunum
leika má við bleika fiska.
Með kúnst og veiðiklækjunum
keikir setja steik á diska.
 
Grænlandsvísa nr. 5
 
Svangir eru synirnir
svíkja veiðikveikjur.
Í viðbót þurfa vinirnir
vænar sautján bleikjur.
 
Grænlandsvísa nr. 6
 
Heitir Snati hundur minn,
hreindýrsmatinn dáir,
hvergi latur höfðinginn,
um holt og flatir gáir.
 
Grænlandsvísa nr. 7
 
Nú er gjólan grimm en hlý,
Grænlands skjólið klárast,
þúsund sólir, silfurský,
sær við bólið gárast.
 
Grænlandsvísa nr. 8 og 9
 
Brosir Magnús, bogin stöng
bláan lækinn klappar.
Vænar flugur, veisluföng
vilja bleikir kappar.
 
Bergsveinn er með brotna stöng,
bleikjur allar svíkja,
vænar lirfur, veisluföng,
varla á þær kíkja.
 
Grænlandsvísa nr. 10
 
Hvenær loks ég hvíli beinin,
hverfa mun ég undir skafl.
Þá mátt láta stóra steininn
standa mér við höfuðgafl.
 
Grænlandsvísa nr 11
 
Mikill finnst mér Grænlands galdur,
göfug er hér sólskríkja,
en enginn stelkur, enginn tjaldur,
engin mófugl að kíkja.
 
Grænlandsvísa nr. 12
 
Þegar kemur kvöldið svart
kíkir inn um glugga
selalýsið brennir bjart
burtu alla skugga.
 
Grænlandsvísa nr. 13
 
Armæðan er alltaf best
upp við steininn rétta.
Tvisvar gleðst víst sá er sest
á svarta gabbrókletta.
 
Grænlandsvísa nr. 14
 
Kröpp hér þykja Kaldbakshorn
kúra þau einsömul,
mjög á okkur mæna forn
milljón ára gömul
 
Grænlandsvísa nr. 15
 
Á Stuðlabergi stendur jörð
Stefáns milli handa.
Þarna sáum hreindýrshjörð
hlaupa yfir sanda.
 
Grænlandsvísa nr. 16
 
Veiðiþjófur á vergangi
vitlaus land um smeygir.
Bukki upp á berggangi
breiðu horn sín teygir.
 
Grænlandsvísa nr. 17 og 18
 
Vinir hlógu, vindur rauk
voru mál að ræða.
Í hendingskasti húfan fauk
í hafið blauta skæða.
 
Söltuð húfan hangir nú
sem harðfiskur og rengi.
Bráðum hefur húfan sú
hangið nógu lengi.
 
 
Grænlandsvísur nr. 19 - 21
 
Brullaup vorum boðnir í
brúðkaup margra nátta
flottheit mjög og fyllerí
1408.
 
Sauðnautsskankar, lambalund,
léttsúrsaður selur.
Vildum mjög á vinafund,
vonir margur elur.
 
Kirkjugólfið granítsteinn,
gruggugt öl við barinn,
en hópurinn var helst til seinn
og hersingin öll farin.
 
 
Grænlandsvísa nr. 22
 
Í Narsaq er eitt sem getur glatt
glampar sem jökulbláminn.
Nokkrar tommur tæmdust hratt
við tuttugu feta gáminn.

Ytra Tungugil

Gilið langa göngum,
gleði fylgir streði,
stökkvum upp að Stekki,
stöndum þar og öndum,
köttur skríður kletta,
krákur hleypur strákur,
götur grónar fetum,
gellur spóinn hvellinn.

Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

269 dagar til jóla

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 121
  • Frá upphafi: 53871

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 90
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband