Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2024

Forsetakosningar 1. júní 2024

Undir feldi

Veltir flóðið fúlum þara
flugur sitja'á taði,
undir feldi aðrir mara,
í úldnu svitabaði.

Kjósa rétt
 
Upp úr jörðu eldur gýs,
elsku vinir.
Einnig rétt ég eflaust kýs,
eins og hinir.
 
 
Kosningaríma
 
Við þurfum ei að þrasa grett
þrúgandi er klefi.
Í kosningum er kosið rétt
þú kýst með þínu nefi.
 
IceQueen kýs ég, Ásdísi Rán
inn á Bessastaði.
Hennar vart get verið án
vel ég því með hraði.
 
Steinunn best mun bæta allt
í Bessastaðasloti.
Hér er mitt mat, hreint og kalt
hún heldur þjóð á floti.
 
Viktor er mín vonardís
vekur Bessastaði.
Stend ég með og stöðugt kýs
sem stund í freyðibaði.
 
Eiríkur með ást og þrá
enn ég kýs og hneigi.
Um bárur siglir beint mót vá
á Bessastaðafleyi.
 
Arnar kýs, ég kalla hátt
"komdu á Bessastaði."
Reiða þjóð mun rétta sátt
og rjómasúkkulaði
 
Hratt ég kýs nú Höllu Tomm
til halla Bessastaða.
Stöðug er og sterk sem romm
stúlkan afslappaða.
 
Ástþór ég víst alltaf kýs
á hann Bessastaði.
Bardagana burtu vís
bægir frá með hraði.
 
Núna kýs ég Nonna Gnarr,
næst á Bessastaði.
Ef lekur ofn og ljótt er marr
það lagar drengur glaði.
 
Baldur kýs og bregst hann ei
Bessastaðagrundum.
Íslands brag og borg og ey
bætir öllum stundum.
 
Helst ég gæti Helgu keyrt
að höllum Bessastaða.
Ljúf er daman, líkt og meyrt
lambið heilgrillaða.
 
Kötu vel, ei bregðast bönd
í Bessastaðafjósi.
Jafnvíg er með hægri hönd
þó hjartað vinstri kjósi.
 
Snjall nú kýs ég Höllu Hrund
sem hrífur Bessastaði.
Hún vekur þjóð og léttir lund
í ljósum flísfatnaði.
 
Kosningalíffæri
 
Ég er ekki alveg viss með hvaða líffæri best er að kjósa...
 
Líffærin þau láta ei
lýðræðið í friði.
Hjartað það er grandlaust grey
og gleypir slæma siði.
 
Best er í gallblöðru allt
beiskt og súrt að gleyma.
Viltu kjósa villt en snjallt
visku húð mun teyma.
 
Í einlægni þú hreina halt
með heilakvörninni.
En atkvæði þú skrifa skalt
með skeifugörninni.
 
 
 
 

Nokkrar stökur

Enginn bóndi

Enginn bóndi, enginn matur
ei um sult mig kæri,
lúðu et og eftirmatur
ágætt hákarlslæri.
 
 
Ráðherrastóllinn
 
Landinn vill ei slef né slen
sleipur þykir hóllinn
hættu þessu Bjarni Ben
blár er ekki stóllinn!
 
Sumardaginn fyrsta
Kaldan vetur kveðjum sátt
hann kann sig enn að byrsta,
en sól og fuglar syngja hátt
Sumardaginn fyrsta.
 
Palestína
 
Bombur sundra börn og víf
beigur, hryllingspína.
Hatur eyðir lönd og líf
Lifi Palestína.

Borgarnesbragur

Borgarnesbragur, sunginn í Mottumessu 17. mars 2024 af Drengjakór Barabars.
Texti Höskuldur Búi Jónsson, Erlent lag.
 
Nú roðnar himinn og sest er sól
söngur heyrist um borg og hól
og Hafnarfjallið í fögrum kjól
fagurt syngja, Borgnesingar.
 
Sjá tunglið kyssir tjásuský
teygir myndirnar golan hlý
svo kettir sperrast við dirrindí
dásemd syngja, Borgnesingar.
 
Í Brákarsundi er fagurt fley
flykkjast tjaldar við sker og ey
hratt gróður vex blómstrar Gleymmérey
glaðir syngja, Borgnesingar.
 
Hér tekur undir með ölduslátt
eins og Brák sýni styrk og mátt
og klettaborgirnar kalla hátt
kröftugt syngja, Borgnesingar.
 
Hár ómur glymur um ás og barð
ástin vekur upp Skallógarð
og söngur heyrist um Heiði'og Skarð
hávært syngja, Borgnesingar.

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband