Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Flensa

Svona sé ég flensuna fyrir mér sem ég hef verið með síðustu daga (svolítið ýkt).

Fékk ég verstan flensugest
fúlt var pestarskorið.
Hausverk mestan, hóst og brest,
í hálsi festist slorið.

Þreklaus eftir þrautir kvefs í þoku reika,
kekkir slíms um kinnar leika
kolstíflað er nefið bleika.

Hafði ei undan horið kom í heljarstöflum,
þó stundum væri kyrrt með köflum,
kinnhor var í háum sköflum.

Nokkur kvæði

Veðrið

Þeyinn hnjúka sakna sárt,
af sunnan blésu vindar,
strauk hann blítt um kinnar klárt,
kraumuðu þá tindar.

Himnamynd

Þrjá ég sá á himni hnoðra,
hrúta tvo með veika koðra,
ær ég sá svo eina vappa,
ekkert var á milli lappa.

Braghendan er skemmtileg

Braghendan er bærileg í bú að færa,
væn mér þykir vísan tæra
vösk hún mun hér andan næra.

Messadrengur magur var og meyr til verka,
enda bara sextán - sirka,
seinn var búkur hans að virka.

Nokkur kvæði

Um veðrið:

Dumbungur, nú dropar falla,
dökkt er yfir þessum bæ,
vetri fer þó víst að halla,
vorið kemur, þá ég hlæ.

Álandsvindar vekja þrótt,
víst þó tinda kæli,
löskuð þindin, löng var nótt
leggst í syndabæli

Síðla veturs, hríðarhret
hor mun tetur snýta
nokkur fet var fannamet
foldarsetið hvíta.

Limran er nokkuð skemmtilegt form:

Limran er alls ekki æt,
og aldrei mun kallast hér sæt,
en hana mun yrkja
og handa þér virkja
hugann og finnst nokkuð mæt.

Ég átti einn hundgamlan hund,
í hundrað ár átti með fund,
í kjalvötnum kröppum
krafsaði löppum
já skringilegt skriðhundasund

Ein lítil afhenda

Hallarbylting held að verði hér á landi,
stjórnin nú er ólíðandi.

Klámbræðslan

Hugmynd kom upp á Leir, að gera klámparadís á Húsavík, í staðin fyrir álver.

Orkufrekan iðnað tel
ansi fínt og henta vel
klámfengin þó alltaf er
erótík við bræðsluker.

Ætli það verði þjóðarsátt um það?

En ég held að Jón Sigurðsson framsóknarformaður sé að hugsa þjóðarsátt í umhverfismálum svona:

Virkjum, byggjum, bræðum ál,
brjótum landsins vætti
þá er varla mikið mál
að mynda þjóðarsætti.

Kvæði

Fyrst ein Afhenda:

Þó að eflaust þyki mörgum þrjóta gæði,
ég vil hérna henda'inn kvæði.

Um ísbirni:

Ísbirnir þeir enda líf í öldudreyra,
eins og fór um fuglinn Geira
fáum ei að sjá þá meira.

Um Kristinn H. Gunnarsson:

Frjálslyndir þeir kætast yfir komu kauða,
Framsókn liggur fyrir dauða.

Sólin hækkar á lofti

Hærra siglir sólarsnekkja,
í suðri gnæfir yfir hóli.
Vestar hennar rúm og rekkja,
rís hún austar hress úr bóli

Kjötsúpa

Hér kemur uppskrift að kjötsúpu, ekki nákvæm en þó nokkuð nærri lagi.

Uppskrift fyrir tvo í þrjár-fjórar máltíðir (því súpan er best eftir svona tvær upphitanir).

Hráefni:
8 súpukjötsbitar (helst stórir, feitir og góðir)
Salt (eftir smekk)
2 rófur
Einn poki gulrætur (sirka 8-10 stk)
8 kartöflur
Hálft hvítkálshöfuð (notaði óvart eitthvað annað kál og það kom ekki að sök)
Einn lófi súpujurtir
Einn lófi hrísgrjón.

Kjötið sett í stóran pott og vatn sett í rétt yfir kjötbitana. Látið suðuna koma upp, setjið slatta af salti og takið tímann. Skerið niður grænmetið, flysjið kartöflurnar og setjið síðan allt út í eftir sirka hálftíma. Eftir sirka klukkutíma er kjötsúpan tilbúin. Nammi namm.

Sjóddu oftar súpuket,
svaka góður réttur,
grænmeti í gumsið set,
gott þú verður mettur.

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband