Leita í fréttum mbl.is

Af hagyrðingamóti Brautartungu nóvember

Hagyrðingamót eru þannig að oft eru umfjöllunarefni þannig að fáir fatta nema heimamenn, en kannski eru einhver efni þarna sem gaman er að lesa fyrir aðra. Ég flutti ekki allar þessar vísur, en orti þessar í tilefni þessa hagyrðingamóts:

  1. Alþingiskosningar

Að kjósa þykir ljúft og létt
og langflest styðja gögn
að allir kjósa alltaf rétt
að eigin sögn.

Borða sumir hakkið hrátt
hægar stíga í austur (sokkinn)
en gellur munu gráta hátt
gangir þú í klaustur (flokkinn)

  1. Flokkaskiptagluggi frambjóðenda

Ef þú ert tittur og trítill
tómur sem hungraður mýtill
úr fallsæti farð
úr flokknum sem varð
á alþingi aðeins of lítill.

  1. Væntingar til talningar atkvæða í NV

Varla hef ég væntingar
verður ennþá þvaga
tel ég víst að talningar
telji marga daga.

Þegar flæði fagra miða
fletta menn og telja
gæti vestan komið kviða
og kastað milli élja

Flokkið sífellt seðlahólf
síðan teljið atkvæðin:
fjögur, átta, tíu, tólf
töfrandi er stærðfræðin.

  1. Yrkja um hina hagyrðingana

Jón Jens

Einn er maður aldrei lens
yrkir vísur gott er skens
býr til stuðlað bragarglens
bestur er hann Nonni Jens.

Gunnar Straumland

Gunnars Straumlands stuðlaspjöld
stöðugt dáist að,
um hann myndi yrkja í kvöld
ef ég mætti það

  1. Yrkja um stjórnandann, Önnu Lísu

Ef ég bara yrkja gæti,
Anna Lísa.
þá myndi fljótt með kraft og kæti
koma vísa.

  1. Yrkja um sjálfan sig, kynna sig

Höski Búi heiti ég
hellist í mig glundur
Með gröfu stundum geng minn veg
og gref í sundur

Höski Búi heiti ég
hagyrðinga-undur
grjót ég finn og geri veg
sem grefst svo fljótt í sundur.

Ég er þægur, þögult grey
þokkalegur fengur
hógvær eins og hofsóley
hlýr og sætur drengur.

  1. Þegar Óli á Hóli, formaður Dagrenningar boðaði til almenns félagsfundar en gleymdi að mæta sjálfur

Fjölmennur var eitt sinn fundur
furðu það vakti og undur
að heima á Hóli
var hlægjandi Óli
dágóður við eitthvað dundur

  1. Tilraunamastur vegna vindmylluáætlana á Grjóthálsi

Berst oft loft sem  belgir sig í Borgarfirði
ef þar myllur fylla firði
fjölmargt yrði lítils virði.

eða

Einhvers staðar verða‘að vera
vindmyllurnar ljótu
kannski fram af kletti skvera
og kasta oní gjótu.

  1. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum

Í fyrra skiptið sem Trump var forseti, þá fannst mér alltaf rétt að ríma svona:

Þó smjúgi oft ræpa um rump
og rjúki upp fnykur og prump
það allvel má þola
en úr eyrum ég skola
ef orðin ég heyri frá Trump.

Núna ríma ég alltaf við Trömp, sem er töluvert erfiðaðara:

Inn á sviðið æddi Trömp
allir á hann störðu,
því hátt heyrðist skvett og skvömp
og skarkali á jörðu.

  1. Forsetakosningarnar á Íslandi

Það kjósa allir sig eða sína
sanngjarna og jafnvel fína
en ógilt og snautt
var mitt atkvæði og dautt
því ég valdi víst Vigdísi mína

eða

Ég fann þau við fjöru og voga
framboð sem vildu í  toga
en ógilt og snautt
var mitt atkvæði og dautt
það endaði á Vigggu Finnboga.

  1. Dagur íslenskrar tungu, 16. nóv.

Pass

  1. Tillögur að nútímavæðingu sviðaáts

Matseðillinn í næstu sviðaveislu

Í forrétt sviðatungutakó
tex mex salsakinnar
úr soði fáum sviðakakó
sætu krúsarinnar.

Svo er rófu tófú-te
og tungubrodds risotto
en sviðakjamma creme brulee
er kannski of mikið lottó.

  1. Fyrsti fjósarobotinn í dalnum kemur í Lund, gerfigreind/vitlíki

pass

 

  1. Dýralæknar svæðisins virðast hafa tekið við hlutverki heilsugæslulækna, sauma sár o.s.frv.

Læknað hefur svöðusár
saumað nokkra bóga
lengt hann hefur æviár
engum þurft að lóga

Brotthvarfs Dagbjarts og Dísu frá Hrísum

Ekki var þar okur klúrt
eða rándýrt verðlag
í kaupauka fékkst kæst og súrt
kvæðamannafélag

Fatnaður stjórnmálamanna og verðmæti á  honum í fjölmiðlum

Í fjölmiðlum er flest til ama
fann þó góðan dóm.
að hátt þú nærð í frægð og frama
í fögrum gúmmískóm.

Rannsókn Landbúnaðarháskólans á losun framræstra mýra á hláturgas

"Nú er hlátur nývakinn“
nú er lögg í pelum
mýrargas við munn og kinn
mælt í decibelum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

351 dagur til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband