Leita í fréttum mbl.is

Pthirus pubis

Ástandið þykir nú helvíti hart
hamfarir getur það kallast
Líflaust er víða það ljóst er og svart
langflestir á það nú fallast.

Veitum þeim grið,
gefum þeim frið
Græðum upp frjósama svörðinn.

Búsvæðin heit,
blíðlegan reit
bætum smá lífi í skörðin.

Helkuldinn ríkir því horfið er fax
er hylur og veitir þeím skjólið
Burtu með stórvirkar vélar og vax
sem vængstífir bungur og tólið.

Veitum þeim grið,
gefum þeim frið
Græðum upp frjósama svörðinn.

Búsvæðin heit,
blíðlegan reit
bætum smá lífi í skörðin.

Eyðimörk gljáfægð er eilífðar blús
Í eitthvað þær verða að grípa.
Syndir í burtu í baðinu lús
best er í hárin að klípa.

Veitum þeim grið,
gefum þeim frið
Græðum upp frjósama svörðinn.

Búsvæðin heit,
blíðlegan reit
bætum smá lífi í skörðin.


Afmæliskveðja til Halldórs

Hefur nú í hálfa öld,
Halldór þraukað ótal gjöld,
andlit pusað aldan köld,
úfið hár og bringuskjöld.

Tófur elt um ótal holt
einnig skriðið í gjótum.
Glannast um á grænum colt
Galant eða toyótum.

Með orans fransis eltir lax
alltaf þykir hipp og kúl
Siglir Hull og Halifax
Til hamingju með Liverpool

Karlinn elskar kvótamark
kann samt best við tuðruspark.
Ef þið sjáið þennan þjark
þarf hann knús og heljar slark


Lækir kólna

Lækir kólna liðast hjá
læðast um og frjósa.
Vötnin bólgna, vorið þrá
og varma sumars ljósa.

Úr klettum seytlar kvæðalind
kraftinn óðum saknar.
á blaðið meitlast beinagrind
bragur hljóður vaknar.

Fljótin blá í fönn og ís
frostið illt vill móta.
En alltaf þá er elfan frýs
aftur stillt mun fljóta.

Vermir sálu hjartað hlýtt
heit þá glæðist staka.
Kulnað bálið kviknar nýtt
kalda bræðir jaka

Yfir glennist óðarfljót
eydd er kvæðastífla.
Vatnið rennur vætir grjót
vökvar næði fífla.

Nokkrar stökur mars-maí

Kvæðamannafundur
 
Fingurbjörg af brennivíni
bergjum vísna milli.
Er þá von að okkur hlýni
og það taktinn stilli.
 

Vágestur

Jólatré af jóskum fjöllum
jólaskapið okkur gefa
koma nú með barkarbjöllum
er birkiplöntum yfir slefa .
 
 
Morgunstund
 
Maríuerla með sitt glingur,
og mjúka vængi þykka,
fyrir allar aldir syngur,
eins og Metallica.
 
Þrestir óma, engin pása,
úti glymur flugher,
eldsnemma sig öskra hása,
eins og Mikki Jagger.
 
Veðrið
 
Í gær var sumar gott var það
gleði endalaust
en það var fljótt afboðað
og aftur komið haust.
 
Ofar rís hún einnig hér
eykst brátt sólarkraftur
um leið og vísan vörpuð er
vorið kemur aftur.
 

Steindór Andersen

Einn mesti kvæðamaður síðustu áratuga er nýlátinn og orti ég lítið erfikvæði til minningar um þann mikla snilling sem Gunnhildur kvað á tónleikum í gærkvöldi (við sömu stemmu og oft er notuð þegar "Móðurjörð hvar maður fæðist" er kveðin).
 
Alltaf var hann engum síðri
ómar bassi um nes og vík,
eins og svar í elfu stríðri
æddi hvassa klettabrík.

Kaldir dropar kýla glugga
kveðju syngjum fram á nótt.
Bergjum sopa, burt með skugga
bikurum klingjum nú af þrótt.

Kvæðamanninn, kærast sála
kveðjum stóran gamlan ven.
Snótir, svannar, skulum skála
Skál Steindór minn Andersen.

Fölsk viska

Fölsk er viskan furðulega,
fagnar hyski, minnkar vinna.
Eykur miska, eflir trega,
alnets giskun hratt vill spinna.

Mörkin dofna‘á rétt og röngu,
ráðið sofnar þjóðir blæða.
Lýður klofnar lífs á göngu,
lokur rofna allt mun flæða.

Verður spekin væn til happa,
viljaþrekið allt að góðu?
Eða frekjan öll mun snappa,
álfur þekjast grárri móðu?

Sköpun minnkar, magnast kúgun,
mannfólks grynnkar skyn og vaka.
Ákaft kinkar kolli þrúgun,
krossinn vinkar líkur haka.

Sumt er best að bara týnist,
bágur gestur falskur leynist.
Því þótt flest það saklaust sýnist,
seinna versta martröð reynist.

Bloggfærslur 20. maí 2025

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

218 dagar til jóla

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 24
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 53973

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband