Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Moggablogg

Næsta rannsókn:

Hreinsið ykkar heilakvörn
hratt í okkar þágu.
Nú skal finna nýja vörn
við nýfrjálshyggjuplágu.


mbl.is Leyndardómurinn bak við engisprettuplágurnar fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn úr sögunni?

Veski mitt er varla þykkt
-vesælt hljóð í pyngju.
Núna finn ég fúla lykt
úr frjálshyggjunnar dyngju.


mbl.is Gera of mikið úr vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðsagan um Fjalla-Hreiðar

Fjalla-Hreiðar á fjall sig dreif
með fé sitt allt
í víking fór þar vesæl kveif
með vit sitt snjallt.

Fjalla-Hreiðar upp fjall sig dreif
með fé sitt allt
með bólgið veski bjartsýnn kleif
bergið svalt.

Fjalla-Hreiðar um fjallið dreif
með fé sitt allt
upp á toppnum enn sést veif
ansi kalt.


mbl.is Hreiðar Már nýkominn frá Suðurskautslandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég hefði gert slíkt hið sama:

Hefði ég fært allar mínar eignir yfir á mína konu í aðdraganda hrunsins, þá hefði frúin staðið stórskuldug eftir.
 
Hérna enga dreg ég duld
að daginn sem kom kreppa;
ég reyndi'að færa risaskuld.
-Hún rétt svo náði'að sleppa.
mbl.is Fleiri bankamenn skráðu eignir á ættingja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kisi og hvutti

Ég samdi vísur um Geir (hvutta) og Davíð (kisa) í desember, veit ekki hvort nokkur var að skilja það á sínum tíma, það var svona:

Kötturinn og varðhundurinn

Lasburða nú lýður pælir:
hví læðist ennþá köttur hér
sem fúlum hnökrum úr sér ælir
yfir gólf og spreyjar smér.

Varðhundur með votann hvarminn
vætir þegjandi sitt ból.
Sem lítil mús hann hylur harminn
í holu finnur lítið skjól.
 
Já hann vill miklu frekar flótta
og fela mörg sín leyndarmál.
Kannski'hann finni kisu ótta
krauma djúpt í sinni sál.

mbl.is Geir: Stjórnuðust af hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskinn hann Einar

Stjórnmálaskýring um þennan leik Einars K.

Til að allt myndi ganga upp þá þurfti hann í fyrsta lagi að velja rétta beitu og vona að Vinstri Grænir myndu bíta á agnið:

Einn á veiðum úti lá
já Einar var á skaki.
Þeir bitu hvalabeitu á
með beittu föstu taki.


Svo þurfti hann að vona að Vinstri Grænir myndu busla það mikið að aðrir fiskar yrðu þess varir og myndu einnig festast á krókinn:

Lítil fór um lúðan æst
leitaði að færi.
Bráðin varð þá beitan næst
þótt biturt agnið væri.


Nú er þá bara spurning hvort Einar nái að landa bráðinni eða hvort Vinstri Grænir og Frjálslyndir sleppi af króknum og fari að hugsa um hag almennings en ekki þennan tittlingaskít.


mbl.is Hvalurinn setur hnút í Frjálsynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andhverfuvísa

Nú brýt ég fast heilann og meitla úr minni
minningu'um orðanna höggun.
Þá mótmælin urðu að andhverfu sinni
algjörri meðmælaþöggun.


mbl.is Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarpúlsinn

Það er augljóst að ríkisstjórninn er með puttan á þjóðarpúlsinum eða þannig

Hríðin magnast, horfin þjóð er
úr hugarstillum.
En Siggi Kára bjór vill bjóð'ér
úr bónushillum.


mbl.is Segir sjálfsagt að fresta áfengismáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Venus hátt á himni skín

Fyrirsögnin á þessari frétt truflar mig hrikalega, þ.e. "Venus skært á himni skín". 

Ástæðan er einföld frá mínum bæjardyrum séð en ég efast um að margir taki undir að fyrirsögnin sé truflandi.

Það er tilvísunin í "Máninn hátt á himni skín" sem er í laginu Álfadans sem helst truflar mig. Eins og margir vita sem þekkja mig, þá er símhringingin í símanum mínum lagið Álfadans og um leið og ég las þessa fyrirsögn þá byrjaði lagið að óma í hausnum á mér, sem er í sjálfu sér allt í lagi því ég er búinn að vera með þetta lag á heilanum meira og minna í þau þrjú-fjögur ár sem ég hef haft þessa hringingu.

Það sem truflar mig mest er samt að orðið "hátt" er skipt út fyrir "skært". Ekki endilega af því að hún skín ekki skært sem hún gerir óneitanlega, heldur af því að fyrirsögnin "Venus skært á himni skín" stuðlar ekki rétt ("aha" segja einhverjir og nenna ekki að lesa meira frá svona ruglukolli).

Þeir sem þekkja lítið til bragfræði gætu bent á að það skipti ekki máli og það er vissulega rétt en það truflar mig samt. Þeir sem þekkja eitthvað til bragfræði en eru ekki fullnuma myndu hugsanlega áætla að nú stuðli skært og skín saman en svo er ekki. Ástæðan er sú að stuðlarnir sk og sk eru í lágkveðu og stuðlar standa aldrei báðir í lágkveðu svona í fyrstu línu.

Því fór ég að reyna í huganum að laga þessa fyrirsögn án þess að breyta innihaldinu, það er frekar erfitt og myndar kjánalegar setningar að endurraða textanum og urðu eftirfarandi textar til sem bragarbót:

  • Venus himni skært á skín
  • Skært á himni skín Venus
  • Himni skært á skín Venus

Allt saman réttur texti bragfræðilega, en frekar kauðslegt að sjá. En svo fór ég að rýna í fréttina og sá að þó Venus sé stjarna sem rís aldrei mjög hátt, þá er hún samt í hæstu stöðu þessa dagana (nánar tiltekið í gær).

Því kem ég með þá einföldu tillögu að best væri að breyta upprunalega textanum sem minnst og því legg ég til eftirfarandi fyrirsögn: "Venus hátt á himni skín".
Svo prjónaði ég við til að þetta yrði ekki vísnalaust:

Venus hátt á himni skín
hrikalega skært
sól hún eltir ennþá
svo undarlega vært.

Hátt á himni nú rís,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.

Nú er liðið annað ár
aldrei kemst hún nær.
Dátt samt dansinn stígur
dularfull og skær

Hátt á himin þá vill,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.

Í björtum dansi bíður enn
blikar djúp og skær.
Elífð lengi líður
hún lítið þokast nær.

Lágt á himni hún rís,
hringsólar um stund.
Venus ætlar enn um sinn
á ástarfund.


mbl.is Venus skært á himni skín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítið

Af hverju grípa þeir ekki tækifærið nú þegar það gefst og fjölga frekar ferðum og bjóða betri áskriftardíla, þ.e. ódýrari þriggja mánaða, hálfs árs kort eða árs kort. Á móti geta þeir hjá strætó bs hækkað verð fyrir þá sem taka bara strætó annað slagið. Þetta gæti kostað þá aukapening til að byrja með, en þegar litið er til framtíðar og fólk verður farið að nota strætisvagnana af einhverju viti, þá hlýtur að vera búið að ná fram sparnaði.

Þannig geta þeir notað kreppuna til að venja fólk við að nota strætó, enda er ekki vanþörf á. Það er allltof mikið um að fólk noti einkabíla (oftast einn í bíl) með tilheyrandi mengun, bílastæðavanda og umferðarhnútum (að ónefndu bensíneyðslu og innflutningi á því).

Ath, ég hef engar forsendur til að vita hvort þetta sé rétt hjá mér, bara hugmynd.

Strætisvagn er stuðið snjalt
gjör stöðugt magn í vetur.
Þá býrð til gagn og bætir allt
og borgin hagnast getur.


mbl.is Dregið úr ferðum hjá Strætó en gjaldskrá óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

243 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband