Leita í fréttum mbl.is

Sigurey frá Drangsnesi

Langt er síðan ég setti hérna inn vísnaþátt (þ.e. með vísum eftir aðra en sjálfan mig). Ég var á kvæðamannafundi í síðustu viku í Reykholti og þar renna vísur upp úr nokkrum snillingum og greip ég eina og mundi nokkurn vegin, en hún er eftir Sigurey frá Drangsnesi (Sigurey Guðrún Júlíusdóttir).

Þjóðviljinn:

Þarna kemur Þjóðviljinn
það er nú meiri snilldin
Geislar af honum góðviljinn
gáfurnar og mildin.

Ég fann síðan fleiri vísur á netinu eftir hana, en einnig eru vísur og ljóð í bókinni Kvæðaperlur úr Kaldrananeshreppi, meðal annars þessar:

Litið í spegil:

Yndislega unga kvinnu
ekki bjóst ég við að sjá,
en þessa herjans hrokkinskinnu
hryllir mig að líta á.

Þó ég hafi starfið stranga

Þó ég hafi starfið stranga
stundað eins og best ég gat
mega aldrei af mér ganga
áhyggjur um föt og mat. 

Hún var ekki hrifin af órímuðum ljóðum:

Flest er það sem fer úr höndum,
flest sem reynist tál.
Ef nú er komið í strand á Ströndum
stuðlabundið mál.

Drengur fór úr skónum út á tröppum:

Ertu svona ungi maður
illa með á nótunum.
Hér er ekki helgur staður
hafðu skóna á fótunum.

Til er ljóðabók með vísum og ljóðum hennar, sem ég ætla að skoða við tækifæri en ég veit af eintaki hjá móður minni.

Sigurey lést árið 1983 þegar ég var 10 ára, en ég kynntist henni samt ekki, en hún var flutt suður áður en ég man almennilega eftir mér en mögulega kom hún þó á Strandir yfir sumartíman þó ég muni það ekki. Maður heyrði þó oft nafn hennar og mannsins hennar (Sophus - Fúsi, en hann var náskyldur mér í gegnum móðurætt mína), en litla fallega húsið þeirra sem stendur enn fyrir ofan Búðina (Kaupfélagið) var oft notað til að fara í yfir, enda fullkomin stærð á húsi fyrir þann leik.

Hér er mynd frá árinu 1986 sem sýnir Fúsahúsið eins og við kölluðum það.

Image (5)

 

 

 


Háttatal febrúar 2025

Í febrúar 2025 tók ég mig til og orti vísur eftir háttatali Sveinbjörns Beinteinssonar*, hér er samantekt með árangrinum.

*Bragarhættir samkvæmt Sveinbirni eru 450 talsins. Daglega bað ég google um að búa til random tölu milli 1 og 450 og svo orti ég eftir þeirri uppskrift sem Sveinbjörn bauð upp á þann daginn. Afrit er til af háttatalinu hér.
 

Ferskeytt 

26 - Frumstiklað, síðhent

Kónguló frá Karþagó
kalt nú bugar hreisið
undir snjó hún bú sér bjó
bölvar fluguleysið.

Draghent

53 - Frumstiklað, síðbakhent

Illt er rokið allt er strokið
áman víða skríður
tunna fokin, tætt er lokið
tóm við síðu bíður.

Stefjahrun 

79 - Samrímað, frumstiklað, Krapphent

Þurr sem fjara, fúll sem mar
fann mig edrúar.
Fer því skar á Barabar
bjór mun drekka þar.

Skammhent

102 - Skáþríkveðið

Eftir gný og gráu skýin
greinum nýjan dag.
Himinnblá mun æða áin
allt kemst þá í lag.

103 - Frumstiklað.  Þessar þrjár vísur áttu upphaflega að verða síðframrímaðar (sjá 109), en það gekk illa og úr varð að háttur 103 fékk óvænt þrjár vísur.

Rökin ört svo hrein frá hjörtum
heilla skýr og kná,
en ljósin björt ef blönduð svörtum
birtast fjarskagrá.

Dökkt er grjót sem drafnir móta
drita fuglar á.
Fjöllin ljót sem fætur brjóta
úr fjarska glæst og blá.

Ef fólk er sest og fullt af gestum
með feikna matarlyst.
Það sem best þá þykir flestum
þrýtur oftast fyrst.

109 -Frumstiklað, síðframrímað

Vert ei gunga, gleyptu tungu
gasalegt er búr,
kaldir pungar koluð lungu
kasað allt í súr.

Úrkast

118- Frummisfjórþætt

Snjallir karlar kalla´og svall´á
Kaneríum
Amma djammar, gammar gjamm´í
galleríum.

127 - Innbrugðið

Að yrkja vísu veldur sjaldan
vondri krísu.
Drjúg ef rís upp dröfnótt aldan
dreg ég ýsu. 

Gagaraljóð, engin staka að þessu sinni.

Langhent

195 - Frumbakhent

Kafald skörpu skilin hylur
skaflar virðast eilíft kvabb
samt á morgun mylur ylur
mjöllina svo verður slabb.

Nýhent

211 - Frumframsneitt, síðframhent

Þó að ei sé kalsa kalt,
korrar Þorri gamalkunnur,
hvæsa blása hviður snjallt,
hundrað sundrast ruslatunnur.

212 - Frumbaksneitt, síðframsneitt

Hríðin öskrar hert og svört
hlær við skeri, köld er Góa.
Vorsól kemur, birtist björt
bráðum hljóðar vell í spóa.

Breiðhent, engin staka að þessu sinni.

Stafhent

252 - Skárímað

Eftir hríðir heyrist fagn
hávært lækkar bölv og ragn
lægi vindur agnar ögn
aftur kemur fislétt þögn.

Samhent, engin staka að þessu sinni.

Stikluvik, engin staka að þessu sinni.

Valstýft

Frumsamframsneitt. Þessar tvær urðu til fyrir misskilning og eiga sér ekki númer - en auðvelt er að finna út að hér er frumsamframsneitt með samanburði við aðra hætti. Það skal tekið fram að innrímið vakna-hjakka er ekki ásættanlegt en ég leyfði því að slæda eins og sagt er í dag. 

Mætar fætur Dias dró
sem Dómínó.
Vitið skýtur skorar Moh
og skellihló.

Vakna, hjakka, Wolves við urð
sem vélin smurð.
Becker fékk á sköflung skurð
svo skall við hurð. 

303 - Frumsamframhent


Kvefið hefur komið snautt
og klipið autt,
því er nefið nokkuð blautt
og næstum rautt.

Braghent

331 - Samrímað, aukrímað. Hér gat ég ekki hætt og úr urðu nokkrar vísur.

Vorljóð 

Fuglar margir flögra um til fjörunytja
vaskir menn er vörur flytja
vansælir í tjöru sitja.

Út við nesið úar fagur æðarbliki
gnótt er hoss i gæðaspiki
af gljúpu klesstu mæðubiki.

Meðfram kaldri sjávarsíðu sullar kolla
fúlir menn með fulla bolla
fara hratt um drullupolla.

Fjaðrir þjóta fuglar busla flottir skvetta
poppið sullast pottlok detta
í pikkup milli þvottabretta.

Stokkendur í straumleysinu stama, hvíla
götur hratt menn gramir bíla
gorma mjúka saman kýla.

En með vori æðurinn þarf unga að hemja
þúsund trukkar þungir lemja
þröngar holur, punga kremja.

Valhent, engin staka að þessu sinni.

Stuðlafall, engin staka að þessu sinni.

 

Vikhent

401 - Hringhent

Óréttlæti alltof víða bítur.
Nartar, grætir, nagar fast,
niður tætir, brýtur.

Afhent 

429 - Frumhent, síðstiklað

Fögur rís í frosti vísan, funheit staka,
sem bræðir niður kaldan klaka.

430 - Fimmstiklað, Netthent

Vísan frá mun vaxa smá og vekja þráa
en hverfa frá í fnyki táa.

Stúfhent 

440 - Frumbakumsneitt

Hér um bil þá brasið endar byrja vand-
ræði, allt í bál og brand.


Nokkrar stökur frá í des 24 og jan 25

Sundhnjúkagígur

Pókerfés um eld og ís
er eilíf gríma.
Líklegt er og eflaust gýs
þar einhverntíma.
 
Snjókorn detta
 
Snjókorn detta hægt og hljótt
holur fela djúpar
þæfingskafald þolinmótt
þvottabrettin hjúpar.
 
Í Fornhaga
 
Í Fornhaga var hlegið hátt
hangiket í nartað
sopið ölið sungið dátt
saman styrkjum hjartað.
 
Landsmót kvæðamanna í Dalabyggð í vor
 
Dönsum senn í Dalabyggð
og drápur kveðum margar.
Oft ef kemur á oss styggð
okkur ríman bjargar.
 

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

268 dagar til jóla

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 53877

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband