Leita í fréttum mbl.is

Ýmsar stökur síðustu mánaða

Apríl

Vor í lofti 
Hægur þeyrinn, þægur ber,
þíðan angan foldar,
inn um glugga, indæll fer
ilmur gróðurmoldar.

Vor ég sé á vænum sel
er vaggar upp og niður,
fjöruilminn finn og skel
og fugla heyri kliður.
 
Hrafnar snyrta hreiðrin sín
hafið slétt sem rjóminn.
Á sumardaginn fyrsta, fín
fögur spretta blómin.
 
Vorið fór
Norðan kuldi, krapi snjór, 
klént en satt. 
Vetur kom og vorið fór
voða hratt.
 
Maí
Kuldalegt
Leikur allt í lyndi,
lóan komin er,
ýfist undan vindi,
ansi kalt er sker,
gula grasið kjagar,
gogginn kælir hagl.
Heyið hrossið nagar,
hélað dustar tagl.
 
Tenerife og vextir
Ráðamanna magnast auður,
meðan auka vextir böl
liggur frændi leggjarauður
laglegur með iskalt öl.
 
Júní
Gangur lífsins
Gangur lífsins virðist vís,
vængjuð krían flýgur,
sólin enn í austri rís,
og í vestri hnígur,
kind af vana kroppar hrís,
kýr á tuggu mýgur,
fullt af gleði, fólkið kýs,
fólk á þing sem lýgur.
 
Strandafjöllin
Ský á himni gaspra grá,
um grænan skóg og lyngið,
og Strandafjöllin fagurblá
sem fegra Húnaþingið.
 
Lómagnúpur
Tíminn áfram tifar djúpur,
taktviss hratt til framtíðar.
Ljósblár himinn, Lómagnúpur,
líður vatnið álftapar.
 
Sjálfsaginn
Sitthver þykir sjálfsaginn,
sumars hlýju daga.
Rúgbrauð, smjör og rauðmaginn,
renna niðr´í maga.
 
Augnahákarl kæstur
Sjaldan færðu fremra hrós,
fagri gróður smæstur:
Yndislega Eyrarrós
augnahákarl kæstur.
 
Skjólið
Berji á þér bleytan gröm
blessuð skýin feli sól,
haldi flest á heljarþröm,
hertu þig og finndu skjól.
 
Sumarhækur
Syngur sumar hér.
Stekkur hóla stúlka fim,
stelkur hlustir sker.
 
Náttúran er ný.
Kindin jarmar, kallar lamb,
kinnar bítur mý.
 
Himinn glansar grár.
Suða flugur, kalla kátt,
kitla nasahár.
 
Njóta eða þjóta
Stundum er stundin að njóta,
og stunda smá slökun og hrjóta,
en eftir þann blund,
oft upp kemur stund,
að tímabært þykir að þjóta.
 
Prjónað
Fram og aftur fingur hratt
fimlega nú brokka,
mamma prjónar peysu glatt,
prýðis húfu´og sokka.
 
Skagafjöllin
Sól í austri svífur rétt
sæt við hafið spegilslétt
Skagafjöllin skreytt og nett
skýin kyssa ofurlétt.
 
Júlí
Flyðrugrundir
Fer ég sundið, fögur stund
flyðrugrundir sveima.
Morgunstundin mýkir lund
margir blunda heima.
 
Gosmóða
Eldgos þykja engu lík
æða hraun um slóða.
En rislág er nú Reykjavík
rökkurgrá er móða.
 
Þrungið spennu þagnir rauf,
þur í eldgos hlóðu,
fölgrá verða fjöllin dauf,
falin bakvið móðu.
 
Lundi
Eg sá lunda, áfram skunda
eins og pundið dregur
út um grundir Gríms að funda
glæstur, undarlegur.
 
Í Hólavallagarði
Tært var spíratár á steini
tappinn fauk og eitthvert datt
og gömlu skáldin glöð í leyni
gegnum okkur drukku hratt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

241 dagur til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband