Leita í fréttum mbl.is

Agnes Magnúsdóttir - vísnaþáttur

Margir kannast við síðustu aftöku á Íslandi, þegar Agnes og Friðrik voru hálshöggin. Færri vita að Agnes var hagyrt, þótt lítið sé til eftir hana. Hér fyrir neðan er allt sem ég fann eftir hana á timarit.is og á vísnavef Skagfirðinga:

Agnes Magnúsdóttir f.1795 - d.1830. Vinnukona víða um Húnaþing austur. Síðast hjá Natan Ketilsyni á Illugastöðum, Vatnsnesi og stóð að drápi hans. Tekin af lífi hjá Þrístöpum í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830 ásamt Friðrik Sigurðssyni frá Katadal.

Brags til vinna búin sért
bragur minn svo þegi.
Bragarkvinn þú bitur ert
brag ef spinnur eigi.

Hér var hún í haldi á Kornsá og vildi koma stúlku til að kveðast á við sig.

------------

Enginn lái öðrum frekt,
einn þótt nái að falla.
Hver einn gái að sinni sekt,
syndin þjáir alla.

Þessi hringhenda er sennilega eftir Agnesi Magnúsdóttur en einnig getur verið að Vatnsenda-Rósa eigi þar hlut að máli.

----------

Syndahrísið særir hart
seka mig án efa.
Guð er vís þó mein sé margt
mér að fyrirgefa.

---------

Skáld-Rósa, einnig kölluð Vatnsenda Rósa var ástfangin af Natani sem Agnes og Friðrik myrtu. Hún orti þetta til Agnesar:

„Undrast þarft ei, baugabrú,
þótt beizkrar kennir pínu:
Hefir burtu hrifsað þú
helft af lífi minu!"

Svaraði Agnes þá samstundis:

„Er mín klára ósk til þín,
angurstárum buhdin —:
Ýfðu ei sárin sollnu mín,
sólarbáru hrundin.

Sorg ei minnar sálar herð,
seka Drottinn náðar
af því Jesú eitt fyrir verð
okkur keypti báðar.


Sést meðal annars á þessu svari Agnesar, að hún hefir verið sér fyllilega meðvitandi um sekt sína.

(Alþýðublaðið 1934)

----------

Hér er önnur útgáfa af seinni vísunni hér fyrir ofan sem Agnes orti til Skáld-Rósu. :

Sálar minnar sorg ei herð,
seka Drottinn náðar,
afþví Jesús eitt fyrír verð
okkur keypti báðar.

(úr vísnaþætti Jóns Bjarnasonar - Dagur 1990)

Hvor vísan er rétt, veit ég ekki.

Ef einhver veit um fleiri vísur eftir Agnesi Magnúsdóttur, þá má sá hinn sami gefa sig fram. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fróðlegt, takk fyrir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.8.2011 kl. 09:41

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Takk fyrir það.

Mér varð hugsað til þess hvort ekki væri hægt að feðra (mæðra) vísuna betur, þ.e:

"Enginn lái öðrum frekt,
einn þótt nái að falla.
Hver einn gái að sinni sekt,
 syndin þjáir alla."

En í vísnasafni skagfirðinga stendur: 

Heimild:
Vísnasafn Sigurjóns Sigtryggssonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga
Tildrög:
Þessi hringhenda er sennilega eftir Agnesi Magnúsdóttur en einnig getur verið að Vatnsenda-Rósa eigi þar hlut að máli.

Ég skoðaði því hvað ég fyndi með því að leita á timarit.is og þar er oftast nær getið um það þetta sé gömul vísa eða húsgangur - nær nútímanum virðast menn síðan almennt eigna þessa vísu Vatnsenda-Rósu (Rósa Guðmundsdóttir, einnig nefnd Skáld-Rósa), en það gæti verið vegna þess að vísur Vatnsenda-Rósu voru að einhverju leiti sungin við sama lag og þjóðlag sem sungið hafði verið við "Engin lái öðrum frekt".

Það elsta sem ég fann var úr lögbergi frá 1912, en þar kemur þessi klausa fram: 

Athugasemdir: Herra B. S. Benson. Stillwater, Minn., sendir eina vísu í viðbót við tvær áður birtar, eftir ömmu hans, Margréti skáldkonu á Þernumýri: "Enginn lái öðrum frekt" og "Margur
reynir þunga þrá." Þriðja vísan samstæð, er þessi:

Engan dæma eigum hart.
oss það sæmir miður.
Mannsins slæma er það art
einn að flæma niður.

Hér telur semsagt Herra Benson að amma sín, Margrét frá Þernumýri hafi samið þessa vísu.

Næsta sem ég finn, er einnig úr Lögbergi frá árinu 1925. Hér kemur fram Mrs. Melsted sem virðist vera með þetta allt á hreinu og eignar vísuna Vatnsenda Rósu:

Leiðrétting.
Eg sá í Lögbergi 19. marz vísur, sem sagt er að séu eftir ókunnan höfund. Fyrstu visuna veit eg ekki neitt um, en önnur í röðinni:
"Enginn lái öðrum frekt", er eftir hana Vatnsenda-Rósu. Hún er í ljóðabréfi, sem hún orti til vinkonu sinnar, þegar Natan varð
fyrir þessu óláni, sem hann komst í; en þeim var víst vel til vina. Eg var ung, þegar eg lærði þetta, en var búin að gleyma því, en ég
mundi strax eftir því þegar eg sá visuna á prenti og hver hefði ort hana. Viti einhver betur, þá er ég glöð að heyra það.
Margt gott sem Rósa gerði.
Virðingarfylst,
Mrs. M. Melsted,
San Diego, Cal.

Gátan virðist að mesu leyst, nema hvað að í vísnaþætti í degi frá árinu 1985 kemur fram að vísan sé eftir Agnesi: 

Einnig er fullyrt að næsta vísa sé eftir Agnesi þá er stóð að drápi Natans, sem frægt er:

Enginn lái öðrum frekt...

Ekki er tekið fram hver fullyrðir það.

Að lokum rakst ég á sögu í Degi frá 1994 - en þar segir: 

Eggert hét maður, er bjó á Kolþernumýri. Sá bær er nú vanalega kallaður Þernumýri eða aðeins Mýri. Eggert var gáfaður og skáldmæltur, en drykkjumaður og áleitinn við vín, hæðinn og meinyrtur - brugðinn var hann við kvennafar og til margs þótti hann búinn.
Kona hans hét Margrét Jónsdóttir, gáfuö kona og skáldmælt, skörungur í skapi og þó stillt vel. Er orð á gert, hve vel hún bar bresti bónda síns. Hún var vinkona Rósu.
Eitt sinn, sem oftar voru þær báðar að Hólakirkju. Þar við kirkjuna var sá maður er Steinn hét Sigfússon, hann var úr Víðidal. Á honum lá kvennafarsorð, hafði þá nýlega átt launbarn og þó fleiri launbörn áður.
Stakk fólkið mjög saman nefjum, er það sá hann, urðu margir til að hæða hann og fyrirlíta, ekki síst Eggert. Þær Rósa og Margrét stóðu saman og hlýddu á. Kvað sína vísuna hvor þeirra.

Margrét kvað:

„Margur reynir þunga þrá
þar aö snjallir hyggi:
Köstum steini aldrei á
einn, þó fallinn liggi."

Rósa kvað:

„Enginn lái öðrum frekt,
einn þó nái falla.
Hver einn gái að sinni sekt:
Syndin þjáir alla."

Var það háttur Rósu frá ungdómi og þá eigi síður er hér var komið, að taka málstað þeirra, er á var hallað.

Niðurstaða mín er að líklegast sé þessi vísa eftir Rósu. Ef einhver veit betur, þá endilega leggið orð í belg. 

Höskuldur Búi Jónsson, 17.8.2011 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Höskuldur Búi Jónsson
Höskuldur Búi Jónsson

Ég yrki og blaðra.

249 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 258
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 253
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband